Færsluflokkur: Bloggar

Kirkjubær í Færeyjum

Félag eldri borgara í Hveragerði stóð fyrir ferð til Færeyja í sumar og fóru 50 manns í þessa eftirminnilegu ferð. Kór eldri borgara söng í elliheimilinu í Runavík og í vinabæ Hveragerðis Toftum. Við fórum í siglingu í Vestmannabjörgin og í Þórshöfn fórum við í gamalt danshús og stigum færeyskan dans. Ég gerði mér ekki grein fyrir því áður hvað Færeyingar eru sérstakir. Maður fékk það strax á tilfinninguna að þessi litla þjóð væri komin miklu lengra á þroskabrautinni en við Íslendingar. Þeir reyna að varðveita svo vel þjóðareinkenni sín og gamla menningu. En þeir eru líka komnir í nútímann og eru búnir að bæta samgöngur mikið í seinni tíð með því að grafa jarðgöng á milli eyjanna sem eru átján talsins. Mig minnir að það eigi aðeins eftir að grafa göng til Suðureyjar en það verða lengstu jarðgöngin. Svo eru þeir búnir að stofna flugfélagið ATLANTIC AIRWAYS og eru þeir eina flugfélagið sem er með ferðir milli Reykjavíkur og Færeyja. Meðal þess sem mér fannst einna eftirminnilegast í ferðinni var að aka í rútubíl um eyjarnar og sjá landið. Og það var þetta sérstaka samband á milli dýranna sem vakti mesta athygli mína, það er að segja kindurnar sem eru hafðar í litlum girðingum og gæsir sem einnig eru girtar af. En svo kemur inn í þetta samspil þjóðarfuglinn Tjaldurinn, sem ég gerði mér ekki grein fyrir áður hvað mikið er af í eyjunum. Að sumu leyti fannst mér Tjaldurinn minna mig á heimaslóðir mínar Hveragerði, en þar er hann góður granni. Höggmyndin á aðaltorginu í Þórshöfn er líka lærdómsrík og minnir okkur á sjálfstæðisbaráttu færeyinga, en það er Tjaldur ( sem merkir Færeyjar) sem er að ráðast á Hrafninn (Dani) sem hefur líklega stolið frá honum eggi eða unga.

Þegar ég kom heim mundi ég eftir að ég átti bók sem er eftir Jóannes Patursson í Kirkjubæ, ekki þennan sem bauð okkur í kaffi og pönnukökur í gamla húsinu í Kirkjubæ, heldur þann sem var uppi fyrir um sextíu árum síðan. Hann samdi bókina ,,Við ókunnugum fólki til Kirkjubøar". Þar stendur að Magnúsarkirkjan (Múrinn) hafi verið byggð á árunum 1269-1308. Það sem er merkilegt við þessa kirkju er að þar eru geymd helg jarteikn, sem eru bein úr orkneyiska jarlinum St. Magnusi og úr íslenska biskupnum Þorláki helga. Fararstjórinn okkar Sveinur Tummasson skáld og rithöfundur sagðist vera viss um að þessi kirkja hefði verið fullbyggð og í notkun á sinni tíð, en danir segðu að færeyingar hefðu aldrei verið menn til að klára hana og þess vegna væri hún þaklaus og hálfbyggð. Ég held að Sveinur hafi rétt fyrir sér því ég hef séð álíka kirkjurústir í Visby á Gotlandi sem eru sagðar hafa verið í notkun einmitt á svipuðum tíma og Múrinn var byggður í Færeyjum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband