Færsluflokkur: Dægurmál

Ungmennafélag Íslands 100 ára

Helga Guðrún Guðjónsdóttir var einróma kjörin formaður Ungmennafélags Íslands á þingi þess sem lauk á Þingvöllum í dag. Það er í fyrsta skipti sem kona er kjörin formaður sambandsins í 100 ára sögu þess .

Það er ekki úr vegi í tilefni 100 ára afmælisins að birta kvæði föður míns sem er á heimasíðu UMFÍ - Þrastarlundur. - Ungmennasambandið er stofnað 2. ágúst 1907, en í morgun hófst sambandsþing þess á Þingvöllum.

Kvæðið heitir Í Þrastarskógi og er í bókinni Álftirnar kvaka sem kom út 1929 á fæðingarári mínu. Einhver sagði að starf UMFÍ snerist nú bara um íþróttir og peninga frá Lottó. Ég vona að svo sé ekki. Hins vegar hef ég séð það að bláhvíti fáninn blaktir ekki lengur við hún í Þrastarlundi þegar maður keyrir þar fram hjá. Það er kannski tímanna tákn. Nú er sá bláhvíti hvergi sjáanlegur nema fyrir ofan dyrnar á Menntaskólanum á Laugarvatni vegna þess að hann er ennþá í merki skólans. Ég legg til að sambandsþing samþykki að hefja fánann aftur til vegs.

Býður ró um bjarkargöng
blómum gróin prýði. -
Þú átt nóg af þýðum söng
Þrastaskógur fríði.

Langt frá iðu lagar-sands
leita ég friðar glaður. -
Æsku-liði Ísalands
ertu griðarstaður.

Hljóðnar glaumur borgar-brags,
bönd og taumar slakna.-
Hefjast straumar helgidags,
-heiðir draumar vakna.

Skógasálin hlýja hlær,
huldumálin stirllir,
geisla-báli í brjóstin slær,
blóma-skálar fyllir.

Rætur haggast. - Reynir hátt,
rís við daggarfalli.
Svönum vaggar vatnið blátt.
Vorið flaggar gulli.

Skógarsálin hlýja hlær,
huldumálin stillir,
geisla-báli í brjóstin slær,
blóma-skálar fyllir.

Rætur haggast. - Reynir hátt
rís við daggarfulli.
Svönum vaggar vatnið blátt.
Vorið flaggar gulli.

Flögra mæður grein af grein. -
Greikka bræður sporið.
- Staka fæðist ein og ein,
eða kvæði um vorið.

Hugi friðar skógar-skart,
- skjálfa viðir grænir.
Út um hliðið óskabjart,
æsku-liðið mænir.

Þungar rastir sækja'um Sog,
- sveinar hasta á niðinn,
taka fast í árar - og
undir þrastakliðinn.

Fylla barminn fögur heit,
fjör í armi kvikar. -
Leikur bjarmi um sækna sveit,
- sól á hvarmi blikar.

Alt vill gróa - Æsku-björk
öðlast ró og stækkar.
Enn mun þróast þjóðar-mörk,
- þessi skógur hækkar.


Húsin við Laugaveg, nr. 4 og 6

Það er sorglegt að Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt niðurrif húsanna 4-6 við Laugaveg. Þetta eru hús sem sýna gömlu Reykjavík eins og hún var á fyrri helming aldarinnar sem leið. Í öðru þessara húsa nr. 6 var lagður grundvöllurinn að stofnun Alþýðusambands Íslands. Ég þori að fullyrða að þar var haldinn undirbúningsfundur þeirra 5 félaga sem stóðu að stofnun þess. Þetta sagði mér Guðgeir Jónsson bókbindari, sem lést 1987. Bókbindarar áttu formann þessarar nefndar Þorleif O. Gunnarsson sem lengi var eigandi Félagsbókbandsins í Ingólfsstræti. Það voru aðallega þrjú félög sem stóðu að stofnun Alþýðusambandsins: Dagsbrún, Prentarafélagið og Bókbindarafélagið, en tvö nýstofnuð félög Hásetafélagið og Verkakvennafélagið Framsókn voru líka með. Stofnfundur ASÍ var hins vegar haldinn í Báruhúsinu sem þá var við Tjörnina, en það er nú löngu farið. Bókbindarafélagið var stofnað í gamla húsinu við Laugaveg 18 í risíbúð Pjeturs G. Guðmundssonar en hann var einn helsti forkólfur verkalýðshreyfingarinnar á fyrstu árum hennar. Það hús var mjög fallegt og stílhreint en var rifið þegar hús Máls og menningar var byggt. Mér finnst tillaga sem birtist í blöðunum nýlega frá Húsfriðunarnefnd mjög góð útfærsla á uppbyggingu á þessu svæði. og vera miklu betri en sú tillaga sem byggingafulltrúi borgarinnar hefur nú samþykkt. Ég skora á Borgarráð að endurskoða afstöðu sína og samþykkja heldur þá tillögu, því um hana gætu menn sameinast. Ég tek undir orð Margrétar Hallgrímsdóttur þjóðminjavarðar á forsíðu Morgunblaðsins á fimmtudaginn, þar sem hún segir: ,,Á Laugavegi gætu að mínu mati orðið mjög alvarleg mistök með freka niðurrifi gamalla húsa, því það skiptir miklu máli að halda í heildarmynd götunnar. Niðurrif í elstu hlutum borgarinnar á auðvitað ekki að eiga sér stað. Það þarf því að fara meira yfir þessi mál heildstætt og ræða þau meira. " Ég tek líka undir með leiðarahöfundi Morgunblaðsins í dag að hér sé um menningarsögulegt slys að ræða.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband