Lögum um lífeyrissjóði þarf að breyta

Í almennum lögum um lífeyrissjóði er ákvæði sem segir að ef munur á eignum og skuldbindingum er meiri en 10%, þá megi þeir skerða lífeyrisgreiðslur úr sjóðunum. Hjá Sameinaða lífeyrissjóðnum fóru skuldbindingar sjóðsins upp fyrir þetta mark s.l. vor og var þá samþykkt að skerða lífeyri um 10% hjá sjóðfélögum frá 1. september n.k.

Ég tel þetta vera mikið óréttlæti, að skerða lífeyri í prósentuhlutfalli yfir alla línuna og líka hjá þeim sem fá litlar bætur úr sjóðnum. Mér finnst að það ætti að vera botn sem ekki er farið niður fyrir. T.d. 150.000 kr.á mánuði.

Það er nauðsynlegt að endurskoða þetta ákvæði í lögunum. Sjóðirnir geta líka tekið það upp hjá sjálfum sér að fara ekki niður fyrir visst mark og væri þá miðað við t.d. lágmarkslaun.


Arnarstofninn í sókn

Það var gleðilegt að heyra að arnarstofninn er að rétta við. Hér á Suðurlandi verptu arnarhjón á fyrri hluta aldarinnar sem leið. Hreiður þeirra var í Núpafjalli í Ölfusi, rétt fyrir ofan gamla bæinn. Ég sá þá oft hnita hringa í loftinu mjög hátt uppi yfir Hveragerði og einu sinni var ég staddur upp við Hamarinn og þá kom örn og settist í bjargið ekki langt frá mér. Í síðasta sinn sem þeir verptu og komu upp unga þá datt hann úr hreiðrinu og Núpamenn náðu honum og ólu hann í nokkurn tíma í auðu fjárhúsi. Síðan var hann til sýnis í gamla barnaskólanum upp í Hveragerði. Finnur Guðmundsson fuglafræðingur kom og merkti hann. Síðan var honum sleppt. Þetta skeði um 1940 og ég býst við að hernaðarumsvifin í Kaldaðarnesi á þessum árum hafi hafi átt sinn þátt í að ernir hurfu af Suðurlandi. En nú eru þeir komnir aftur og það væri gaman að heyra um það ef einhver sést á þessum slóðum.

Launalækkun hjá stjórnendum lífeyrissjóða

Í desember s.l. voru umræður í Morgunblaðinu um laun stjórnenda lífeyrissjóðanna og kom þá fram að sumir þeirra voru með um 1.500.000 á mánuði, t.d. í Sameinaða lífeyrissjóðnum. Sagt var að stjórnarmenn sjálfir ættu að taka ákvörðun um það hvað þeir lækkuðu mikið í launum. Síðan tæki ársfundurinn, sem haldinn var s.l. vor, ákvörðun um það hver endanleg laun yrðu. Hvernig skyldi endirinn hafa orðið á þessu?

Nú þessa dagana er verið að senda út bréf frá sjóðnum um að lækka eigi ellilífeyririnn hjá sjóðnum um 10%. Rökstuðningur þeirra hjá lífeyrissjóðnum er að þetta sé gert skv. lögum og nú sé fjármálráðuneytið búið að samþykkja ákvörðun ársfundar.

Ef það er svo, þá vil ég leggja til að lögum um lífeyrissjóði verði breytt og þetta ákvæði verði lagað þar sem segir að það skuli lækka lífeyrisréttindi ef munur á eignum og skuldbindingum er meiri en 10%. - Það er óþolandi að það sé ráðist á þá lægst launuðu í þjóðfélaginu á þennan hátt. Það mætti vel stoppa við 150.000 á mánuði, og lægri lífeyrir en það væri ekki skertur. 

Hins vegar mætti alveg hugsa sér að skerða þá meira sem hafa ofurlaunin. Mér finnst að það ætti að skoða það núna hvað stjórnendur lífeyrissjóðanna hafa núna í laun og þar mætti markið fara vel niður fyrir ráðherralaun.


Nýr hver á gamla hverasvæðinu í Hveragerði

Þessi hver byrjaði að láta öllum illum látum fyrir skemmstu og er búinn að brjóta töluvert af kísilhellunni í kringum sig. Hverinn er staðsettur rétt fyrir vestan Bakkahver og heitir ekki Manndrápshver eins og stendur á heimasíðu Hveragerðisbæjar. Þetta er nýr hver.

Hverinn sem maðurinn gekk í fyrir mörgum árum heitir Bláhver. Þá var lögð götulýsing frá þjóðveginum inn í mitt þorp. Á melnum á milli Bláhvers og Bakkahvers voru brauðin bökuð í gamla daga. Heimild mín um þetta slys í Bláhver er komin frá Aðalsteini Steindórssyni, Lækjarbrún 3 í Hveragerði, en hann ólst upp á þessu svæði frá 9 ára aldri. Hann sá um að baka brauð fyrir móður sína og ýmsa í sveitinni og svo vann hann seinna við jarðborinn sem fyrstur boraði eftir heitu vatni í Hveragerði.

 


Prentminjasafn á Hólum

Nú er verið að grafa upp gömlu prentsmiðjuna á Hólum í Hjaltadal, sem Guðbrandur Þorláksson biskup kom á fót á 16.öld. Það var nokkurn veginn vitað hvar hún var, en ekki með vissu. Í túninu var örnefnið „Prentsmiðjuhóllinn" og þar var grafið og þar fannst prentsmiðjan.

Mikið af minjum hefur fundist og má sjá ýmislegt af því nú þegar á Þjóðminjasafninu í Reykjavík. Við erum heppin og rík Íslendingar að þetta hefur komið í dagsljósið. Þarna eigum við miklar gersemar sem við þurfum að varðveita á veglegan hátt.

Nú liggur beinast við að koma upp prentminjasafni á þessum merka sögustað. Það er reyndar byrjað að undirbúa það. Hólanefnd hefur ákveðið að koma á fót fyrsta prentminjasafni landsins. Nú þurfa allir bókagerðarmenn að leggjast á eitt og styðja við þessa ákvörðun nefndarinnar.

Árið 1940 á nafndegi Jóhanns Gutenbergs 24. júní fóru prentarar og aðrir bókagerðarmenn í merka för norður að Hólum og færðu Hóladómkirkju Guðbrandsbiblíu að gjöf. Það sýndi hvað stéttin mat mikils þennan stað og verk Guðbrands. Nú þurfum við að bæta um betur og koma þar upp veglegu prentminjasafni.

 


Sameinaði lífeyrissjóðurinn lækkar lífeyrisgreiðslur

Það er með ólíkindum að lífeyrissjóðurinn minn, Sameinaði lífeyrissjóðurinn skuli ætla að lækka greiðslur til eftirlaunafólks um 10% frá og með 1. september n.k. Því miður gat ég ekki verið á ársfundinum í vor 27. maí, en þar virðist þetta hafa verið samþykkt án mikilla mótmæla.

Ég mótmæli þessu hér með og legg til að þessi ákvörðun verði tekin aftur og komi aldrei til framkvæmda.

Það er sagt í bréfinu til mín að tillagan sem borin var upp á fundinum sé byggð á tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins þann 31. des. 2008. - Fyrstu viðbrögð mín við þessari skýringu eru þau, að það hefði átt að endurskoða störf stjórnar og tryggingafræðings og taka upp ný vinnubrögð. Ég legg til að næst  verði kosnir fleiri úr hópi eftirlaunafólks. Og fleiri konur.

Ég fékk um síðustu mánaðarmót um 100.000 kr úr þessum lífeyrissjóði og það á núna að lækka niður í 90.000 kr um næstu mánaðarmót.

Ég legg til að það verði ekki lækkað á þeim sem eru með undir 150.000 kr á mánuði og ég vildi gjarnan heyra álit fleiri sjóðfélaga minna á þessu máli.

Það er óréttlátt að þeir sem minnst bera úr býtum séu látnir borga óráðsíu annara manna, sem hafa leikið sér að peningum okkar eins og í Matador-spili.

Prósentureikningur á ekki við í þessu uppgjöri. Það er rangt hjá stjórnendum lífeyrissjóðanna að nota þann útreikning og sýnir hvað tryggingafræðingarnir eru vanhæfir.

Það er orðið algert siðrof á sumum sviðum þjóðfélagsins og við þurfum að breyta því.

 


Lífeyrissjóðir í umræðu síðustu daga

Ég las með athygli grein Lilju Mósesdóttur í DV 14. ágúst s.l., sem heitir LÁN EINKAAÐILA FALLA Á RÍKIÐ. Hún vill skuldaniðurfellingu til að minnka líkurnar á því að Ísland geti ekki staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Svo segir hún: „Það er samt mjög erfitt að fara fram á það þar sem við erum eignamikil þjóð með lífeyrissjóðina okkar. Við fáum ekki eðlilega meðhöndlun hvað varðar skuldir einkaaðila. Það er verið að setja of mikið af skuldum einkaaðila á ríkið vegna þess að við eigum of digra lífeyrissjóði". Hvað meinar Lilja? Hvað kemur þetta lífeyrissjóðunum við?

Í Jadegarðinum á Kanarí

Við vorum stödd suður á Gran Canary fyrir nokkrum árum og eitt af því sem Íslendingar létu ekki fram hjá sér fara á þeim tíma var að fara á kínverska veitingahúsið Jadegarðinn og fá sér Pekingönd að borða. Þetta er frekar lítill staður og það var biðröð við innganginn þegar við mættum. Þarna voru m.a. nokkrir Íslendingar og sumir nokkuð við skál. Þegar lyklinum var snúið þusti fólkið inn og staðurinn bókstaflega fylltist á svipstundu. Við settumst í miðjan salinn og öðrum megin við okkur var fólk frá Raufarhöfn. Hinum megin var svo fjölskylda frá Hornafirði. Meðan við biðum eftir matnum fór Hornafjarðarhúsbóndinn að kanna hvaðan fólk væri af Íslandi og þegar hann heyrði að fólkið hinum megin við okkur væri frá Raufarhöfn fór hann með þessa alkunnu síldaráravísu:

Farðu í rassgat Raufarhöfn,
rotni fúli drullupollur.
Andskotinn á engin nöfn
yfir öll þín forarsöfn.
Vistin þín er víti jöfn,
viðmótið er kuldahrollur.

Það var heldur betur tekið á móti við Raufarhafnarborðið og menn skömmuðu Hornfirðingana af heift. Um stund leit út fyrir að upp úr myndi sjóða og að til handalögmála kæmi. Ég hafði heyrt þessa vísu þegar ég var á síld í gamla daga og reyndi í fljótheitum að ryfja upp viðbótarvísurnar sem ég átti að eiga djúpt í minni mínu. Raufarhafnarbúinn svaraði nefnilega fyrir sig á þessa leið:

Þótt Raufarhöfn hafi engan andlegan auð
og enginn sé fegurðar staður,
að lasta sitt eigið lifibrauð
er ljótt af þér aðkomumaður.

Þegar ég hafði farið með þessa vísu fyrir mannskapinn sljákkaði heldur í Raufarhafnarliðinu og ekki kom til handalögmála, en húsbóndinn var samt ekki ánægður með að sitja undir sama þaki og þetta Hornafjarðarfólk og stóð upp og strunsaði út úr salnum og fjölskyldan á eftir. Þá fór ég með þriðju vísuna fyrir Hornfirðingana sem eftir voru. Aðkomumaðurinn segir:

Ég vinn fyrir matnum á veglegan hátt
og vona ´ann sé greiddur að fullu.
En ég get ekki lofað þann guðlega mátt,
sem gerir mann löðrandi í drullu.

Þessi kveðskapur er svona heldur groddalegur, en svona var lífið á síldarárunum fyrir norðan um miðja síðustu öld. Ekki veit ég hver hefur ort þetta, en oft heyrði maður, a.m.k. fyrstu vísuna.


Landið helga (brot)

Þótt allir knerrir berist fram á bárum
til brots við eina og sömu klettaströnd,
ein minning fylgir mér frá yngstu árum,
- þar er sem bliki á höfn við friðuð lönd.
Ég man. Ein bæn var lesin lágt í tárum
við ljós, sem blakti gegnum vetrarhúmið.
Og svo var strokið lokki af léttri hönd,
sem litla kertið slökkti og signdi rúmið.

Einar Benediktsson.


Framsýn lífeyrissjóðsstjórn

Það hefur verið brotið blað í sögu lífeyrissjóðsmála á Íslandi. Þegar harðnar á dalnum fara menn að kryfja málin til mergjar og spyrja spurninga og vilja vita um upphaf sjóðanna. Af hverju sitja atvinnurekendur í stjórnum lífeyrissjóðanna? Sjómannadeild Lífeyrissjóðs Framsýnar samþykkti nýlega að krefjast þess að atvinnurekendur sætu ekki lengur í stjórn síns sjóðs, því þeir hefðu annarra hagsmuna að gæta en launþegarnir í sjóðnum. Þetta hefur ekki skeð í næstum hálfa öld. Launþegar hafa bara látið sér það lynda að atvinnurekendur væru að vasast með peninga verkalýðsstéttarinnar í alls konar vafasömum fjárfestingum og hefur nú komið á daginn að þeim er ekki treystandi lengur til að annast fjármálastjórn sjóðanna.

Ég tek heilshugar undir þessi sjónarmið þeirra og hvet alla verkalýðssinna til þess að koma atvinnurekendum frá völdum strax á næsta ári. Eins þarf að koma fleiri konum í stjórn sjóðanna, því þær eru gætnari en karlarnir.

Þegar við bókbindarar stofnuðum okkar sjóð í vinnudeilu 1959 voru gerðar nokkrar tilraunir til þess að við fengjum meirihluta í stjórn, en það var aldrei gerð nein alvarleg tilraun. Tillagan um lífeyrissjóð var sett fram í samningum þar sem við fórum fram á 15% launahækkun, en í staðinn fyrir hana fengum við 6% greiðslur í sjóðinn frá atvinnurekendum. Við borguðum sjálf 4% af okkar launum.

Síðan hefur lítið verið rætt um þetta mál í verkalýðshreyfingunni svo ég viti, en guð láti gott á vita, ef nú er viðhorfsbreyting að verða.


mbl.is Óeðlilegt að atvinnurekendur sitji í stjórnum lífeyrissjóða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband