Færsluflokkur: Tónlist

Í Jadegarðinum á Kanarí

Við vorum stödd suður á Gran Canary fyrir nokkrum árum og eitt af því sem Íslendingar létu ekki fram hjá sér fara á þeim tíma var að fara á kínverska veitingahúsið Jadegarðinn og fá sér Pekingönd að borða. Þetta er frekar lítill staður og það var biðröð við innganginn þegar við mættum. Þarna voru m.a. nokkrir Íslendingar og sumir nokkuð við skál. Þegar lyklinum var snúið þusti fólkið inn og staðurinn bókstaflega fylltist á svipstundu. Við settumst í miðjan salinn og öðrum megin við okkur var fólk frá Raufarhöfn. Hinum megin var svo fjölskylda frá Hornafirði. Meðan við biðum eftir matnum fór Hornafjarðarhúsbóndinn að kanna hvaðan fólk væri af Íslandi og þegar hann heyrði að fólkið hinum megin við okkur væri frá Raufarhöfn fór hann með þessa alkunnu síldaráravísu:

Farðu í rassgat Raufarhöfn,
rotni fúli drullupollur.
Andskotinn á engin nöfn
yfir öll þín forarsöfn.
Vistin þín er víti jöfn,
viðmótið er kuldahrollur.

Það var heldur betur tekið á móti við Raufarhafnarborðið og menn skömmuðu Hornfirðingana af heift. Um stund leit út fyrir að upp úr myndi sjóða og að til handalögmála kæmi. Ég hafði heyrt þessa vísu þegar ég var á síld í gamla daga og reyndi í fljótheitum að ryfja upp viðbótarvísurnar sem ég átti að eiga djúpt í minni mínu. Raufarhafnarbúinn svaraði nefnilega fyrir sig á þessa leið:

Þótt Raufarhöfn hafi engan andlegan auð
og enginn sé fegurðar staður,
að lasta sitt eigið lifibrauð
er ljótt af þér aðkomumaður.

Þegar ég hafði farið með þessa vísu fyrir mannskapinn sljákkaði heldur í Raufarhafnarliðinu og ekki kom til handalögmála, en húsbóndinn var samt ekki ánægður með að sitja undir sama þaki og þetta Hornafjarðarfólk og stóð upp og strunsaði út úr salnum og fjölskyldan á eftir. Þá fór ég með þriðju vísuna fyrir Hornfirðingana sem eftir voru. Aðkomumaðurinn segir:

Ég vinn fyrir matnum á veglegan hátt
og vona ´ann sé greiddur að fullu.
En ég get ekki lofað þann guðlega mátt,
sem gerir mann löðrandi í drullu.

Þessi kveðskapur er svona heldur groddalegur, en svona var lífið á síldarárunum fyrir norðan um miðja síðustu öld. Ekki veit ég hver hefur ort þetta, en oft heyrði maður, a.m.k. fyrstu vísuna.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband