Færsluflokkur: Kjaramál
27.8.2009 | 19:46
Lögum um lífeyrissjóði þarf að breyta
Í almennum lögum um lífeyrissjóði er ákvæði sem segir að ef munur á eignum og skuldbindingum er meiri en 10%, þá megi þeir skerða lífeyrisgreiðslur úr sjóðunum. Hjá Sameinaða lífeyrissjóðnum fóru skuldbindingar sjóðsins upp fyrir þetta mark s.l. vor og var þá samþykkt að skerða lífeyri um 10% hjá sjóðfélögum frá 1. september n.k.
Ég tel þetta vera mikið óréttlæti, að skerða lífeyri í prósentuhlutfalli yfir alla línuna og líka hjá þeim sem fá litlar bætur úr sjóðnum. Mér finnst að það ætti að vera botn sem ekki er farið niður fyrir. T.d. 150.000 kr.á mánuði.
Það er nauðsynlegt að endurskoða þetta ákvæði í lögunum. Sjóðirnir geta líka tekið það upp hjá sjálfum sér að fara ekki niður fyrir visst mark og væri þá miðað við t.d. lágmarkslaun.
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2009 | 09:11
Sameinaði lífeyrissjóðurinn lækkar lífeyrisgreiðslur
Það er með ólíkindum að lífeyrissjóðurinn minn, Sameinaði lífeyrissjóðurinn skuli ætla að lækka greiðslur til eftirlaunafólks um 10% frá og með 1. september n.k. Því miður gat ég ekki verið á ársfundinum í vor 27. maí, en þar virðist þetta hafa verið samþykkt án mikilla mótmæla.
Ég mótmæli þessu hér með og legg til að þessi ákvörðun verði tekin aftur og komi aldrei til framkvæmda.
Það er sagt í bréfinu til mín að tillagan sem borin var upp á fundinum sé byggð á tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins þann 31. des. 2008. - Fyrstu viðbrögð mín við þessari skýringu eru þau, að það hefði átt að endurskoða störf stjórnar og tryggingafræðings og taka upp ný vinnubrögð. Ég legg til að næst verði kosnir fleiri úr hópi eftirlaunafólks. Og fleiri konur.
Ég fékk um síðustu mánaðarmót um 100.000 kr úr þessum lífeyrissjóði og það á núna að lækka niður í 90.000 kr um næstu mánaðarmót.
Ég legg til að það verði ekki lækkað á þeim sem eru með undir 150.000 kr á mánuði og ég vildi gjarnan heyra álit fleiri sjóðfélaga minna á þessu máli.
Það er óréttlátt að þeir sem minnst bera úr býtum séu látnir borga óráðsíu annara manna, sem hafa leikið sér að peningum okkar eins og í Matador-spili.
Prósentureikningur á ekki við í þessu uppgjöri. Það er rangt hjá stjórnendum lífeyrissjóðanna að nota þann útreikning og sýnir hvað tryggingafræðingarnir eru vanhæfir.
Það er orðið algert siðrof á sumum sviðum þjóðfélagsins og við þurfum að breyta því.
Kjaramál | Breytt 18.8.2009 kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)