4.10.2007 | 10:14
Himinbrún mótmælt
Þetta er í eina skiptið á ævinni sem ég hef upplifað næstum því uppreisn á bíósýningu. Mynd sem fjallar um mótmælanda var mótmælt hressilega. Myndin byrjaði vel og við sáum marga góða leikara, t.d. gamli maðurinn, pabbi prófessorsins. Hann var fantagóður. Aðalstjarna myndarinnar Hanna Schygulla lék gömlu konuna, móður vinkonu stúlkunnar sem stóð í mótmælunum. Myndin hélt manni dáldið föstum við atburðarásina til að byrja með, en þetta voru eilífar flækjur. Svo kom að því að myndin fór að óskýrast, önnur hliðin á myndinni fór úr fókus og smátt og smátt varð enski textinn allur í þoku. Fyrst datt manni í hug að leikstjórinn væri að leggja áherslu á tilfinningar fólksins í leiknum, en þegar þetta jókst að mun og maður heyrði bara tal á þýsku og enski textinn í þoku meira og minna og myndin oft úr fókus, þá fór að ljókka ástandið. Fólk hrópaði að það ætti að biðja alla afsökunar á þessu. Sumir stóðu upp og fóru út. Það var mikil ókyrð í salnum. Ég verð að segja það að mér varð hálfillt í höfðinu á því að góna á myndina fara svona úr fókus. Ég hefði aldrei farið að sjá þessa mynd ef ég hefði vitað hvernig hún var. En leikararnir stóðu vel fyrir sínu. Þó var þessi Hanna ekkert betri en hinir aðalleikararnir.
Flokkur: Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 10:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.