7.3.2008 | 11:02
Á daufum ljósum
Ég skrifaði nýlega blogggrein um umferðina á Hellisheiði og vakti athygli á lélegu eftirliti lögreglu með bifreiðum sem eru ljóslausar öðrum megin. Hafa sem sagt bara eitt ljós og þegar maður mætir þeim þá er eins og um mótorhjól sé að ræða.
Nú keyrði um þverbak í gærkvöldi. Ég tók rútuna á Umferðamiðstöðinni í Reykjavík kl. 9.00 austur í Hveragerði. Ég var eini farþeginn. Þegar við komum að Kringlumýrarbraut stöðvaði bílstjórinn á útskoti, en hann var búinn að tala í símann alla leið og keyra með annari hendi. Það var slydduhríð og lélegt skyggni. Bílstjórinn fór út og skoðaði ljósin að framan. Það virtist eitthvað í ólagi með rafmagnið. Þá renndi bíll upp að okkur og það var skipt um bílstjóra. Eldri maður settist við stýrið. Hann bauð ekki gott kvöld og þagði. Mér fannst þetta skrítið. Ég spurði hvort ég fengi ekki að hlusta á útvarpið, það var spurningakeppni framhaldsskólanna. Það umlaði eitthvað í manninum. Hann kveikti ekki á útvarpinu. Ég sá strax að það var meira en lítið að. Þurrkurnar voru ekki hafðar í gangi. Ég uppgötvaði að rafmagnið var alveg að fjara út af bílnum. Mér hraus hugur við þegar aðvörunarpíp og rautt ljós birtist í mælaborðinu. Það umlaði enn í manninum þegar ég spurði hvort rafmagnið væri að detta út.
Að keyra á ljóslitlum áætlunarbíl í slydduhríð með óvirkar þurrkur austur fyrir fjall er óðs manns æði.
Ég skil ekki enn þá hvernig við komumst yfir heiðina, en það var eins og bílstjórinn hefði röntgensjón í myrkrinu og hríðinni. Þjónusta af þessu tagi er ekki til fyrirmyndar og mér finnst að yfirvöld eigi að taka í taumana. Þetta sérleyfi var veitt stuttu fyrir síðustu kosningar og mér finnst að það ætti ekki að endurnýja það. Það ætti að taka upp strætisvagnaferðir í öruggum farartækjum sem venjulegir menn aka, en ekki þumbarar á borð við þennan einkennilega mann sem ók rútunni á fimmtudagskvöldið austur í Hveragerði og á Selfoss.
Athugasemdir
Vona að þú hafir sent inn kvörtun Svanur minn, það er óþolandi svona þjónusta, og þegar farþegar hreinlega óttast um líf sitt við þær aðstæður.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.3.2008 kl. 11:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.