16.8.2008 | 11:57
Draugur uppvakinn
- Það er með ólíkindum hvað margir uppvakningar hafa átt heima í Framsóknarflokknum gegnum tíðina. Einu sinni áttum við Ölfusingar og Hvergerðingar einn slíkan, Jónas frá Hriflu. Hann bjó á sumrin í Fífilbrekku hér undir Reykjafjallinu, keyrði um á fínum Pachard bíl, en átti dálítið erfitt með að keyra og mæta öðrum bílum. Hann lét því gera sérstaka afleggjara með stuttu millibili, á Krísuvíkurveginum, sem gárungarnir kölluðu ,,Jónasa". Þegar kom að því að Hvergerðingar rifu sig úr samstarfi við Ölfusinga og mynduðu nýtt sveitarfélag, þá átti Jónas stóra rullu í þeim leik, ásamt Guðjóni A. Sigurðssyni í Gufudal stórbónda og Unnsteini Ólafssyni skólastjóra á Garðyrkjuskólanum á Reykjum. Hvergerðingar sem voru orðnir seinþreyttir á framkvæmdaleysi Ölfushrepps stofnuðu nýtt sveitarfélag, en fengu aðeins smásneið af landi Reykja hinum megin Varmár, þ.e. lóðina í kringum sundlaugina Laugaskarð þar sem framfaramaðurinn Lárus J. Rist hafði staðið fyrir sundlaugarbyggingu ásamt ungmennafélögum á Suðurlandi. Auðvitað áttu Hvergerðingar heimtingu á því að fá alla Reykjatorfuna í sinn hlut; ríkið átti jörðina hvort sem var; en einhver ómennsk framsóknarstefna var í gangi um að það skyldi gert sem minnst fyrir ævintýramennina í Hveragerði eins og einn bóndinn orðaði það á fundi um skiptingu hreppsins. Aldís Hafsteinsdóttir núverandi bæjarstjóri í Hveragerði er fyrst til að vekja athygli á þessu máli og heimta rétt okkar Hvergerðinga til landsins. Mér finnst að nú eigi að gera alvöru úr hlutunum og fylgja þeim fast eftir. Það þarf að leggja fram frumvarp á Alþingi um þetta mál og fá það í gegn á næsta þingi. Þetta ætti að vera auðvelt ef sjálfstæðismenn styðja bæjarstjóra sinn. Þorlákshafnarbúar skilja náttúrlega ekkert í málinu eins og Ólafur Áki bæjarstjóri þeirra sagði og presturinn Baldur staglast á því að um Hveragerðisdeild Sjálfstæðisflokksins sé að ræða. Við frábiðjum okkur slíkar sendingar og það í fallegu kirkjunni okkar, sem hefur einn besta hljómburð sem til er á landinu.Ráðherrar geta breytt þessu máli ef þeir hafa dug til. Hvað gerði ekki Hannibal Valdimarsson þegar hann fékk sneið af þessu landi fyrir verkalýðshreyfinguna í Ölfusborgum og skulu honum ávallt færðar þakkir fyrir það. Fólkið sem býr á Reykjum þarf alltaf að fara í gegnum bæinn okkar til þess að komast til síns heima. Þetta svæði í kringum Hveragerði á að sjálfsögðu að tilheyra sveitarfélaginu, þó ekki væri litið á það nema frá landfræðilegu sjónarmiði. Og Reykjatorfan hefur ávallt verið í Hveragerði í hugum fólks á svæðinu. Mér finnst að við ættum að slíta öllu samstarfi við Þorlákshöfn ef þeir ekki skilja sjónarmið okkar Hvergerðinga. Hvergerðingar ættu að geta búið til nýjan kirkjugarð í sínu landi og Ölfushreppur getur þá bara átt Kotstrandarkirkjugarð í friði fyrir okkur.
- En nú er kominn nýr uppvakningur framsóknar til sögunnar. Óskar Bergsson heitir hann og boðar nýja trú á landið og atvinnuuppbyggingu í Reykjavík, þar sem allt er í kaldakoli í pólitíkinni. Og það á að fórna okkur Hvergerðingum einu sinni enn. Fyrri meirihluti í Reykjavík var búinn að slá Bitruvirkjun af, eftir harða baráttu umhverfisverndarsinna, en nú á að halda áfram með Bitruvirkjun, og af hverju? Af því Orkuveita Reykjavíkur er búinn að eyða um 1 miljarði í rannsóknir á svæðinu. Það eru peningarnir sem eiga að fá að ráða, frekjan í OR sem flennir sig út um allar koppagrundir með tilraunaborholur á borholur ofan og óafsakanlegan útblástur brennisteinsvetnis (H2S) skv. grein Pálma Stefánssonar efnaverkfræðings í Mbl. 14.8.2008, með þeim afleiðingum að hann hindrar súrefnisupptöku og lamar öndun hjá fólki. Við Hvergerðingar erum steinsnar frá þessari virkjun og því verður mikil loftmengun frá henni í Hveragerði. Bæjarstjórinn okkar hefur sagt sína skoðun á málinu og tekið afstöðu með sínu fólki, bæjarbúum. Hvað um börnin í Hveragerði? Hvers eiga þau að gjalda? Af hverju er ekki farið í heilstætt umhverfismat á virkjunum á Kolviðarhóli, Hverahlíð og Bitru? Óskar Bergsson segir þá vitlausustu setningu sem ég hef lengi séð í viðtali í Mbl. í dag: ,,En Bitruvirkjun er á Hellisheiði, nánast undir háspennulínunum, og ef við getum ekki virkjað þar, þá veit ég ekki um neinn stað á Íslandi þar sem við getum borað eftir heitu vatni." Sem sagt, það er í lagi að bora þar af því Bitran er undir háspennulínunum. Það er ekkert minnst á mengun frá þessari virkjun og áhrif af henni á okkur Hvergerðinga, eða jafnvel Reykvíkinga, eins og verið var að tala um fyrir nokkru síðan. Þá er ekkert minnst á náttúruperluna þarna og svæðið í kring sem útivistarsvæði landsmanna allra. - Í þessu sambandi vil ég segja við Óskar. Þegar Orkuveitan boraði í hrauninu vestan við Hveradali þá komu þeir allt í einu niður á heitavatnsæð sem þeir vissu ekkert um. Væri ekki ráð fyrir Óskar að fylgjast dálítið betur með hvað er að gerast. Ég gæti t.d. trúað því að það mætti finna nóg af borsvæðum í óbyggðum á Reykjanesi, lengra frá náttúruperlum á borð við Bitru.Það er hörmung að sjá framkvæmdirnar vestan við Hellisheiði þar sem vatnspípurnar liggja í hrauninu beggja vegna vegar. Auðvitað átti að leggja þær í jörð. Og að sjá allar háspennulínurnar uppi á Hellisheiði, það er ömurlegt. En þetta viðgengst með vitlausum lögum eða lagaleysi. Ísland er löngu orðið stjórnlaust land og það er tímabært að taka í taumana.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.