19.8.2009 | 09:33
Prentminjasafn á Hólum
Nú er verið að grafa upp gömlu prentsmiðjuna á Hólum í Hjaltadal, sem Guðbrandur Þorláksson biskup kom á fót á 16.öld. Það var nokkurn veginn vitað hvar hún var, en ekki með vissu. Í túninu var örnefnið Prentsmiðjuhóllinn" og þar var grafið og þar fannst prentsmiðjan.
Mikið af minjum hefur fundist og má sjá ýmislegt af því nú þegar á Þjóðminjasafninu í Reykjavík. Við erum heppin og rík Íslendingar að þetta hefur komið í dagsljósið. Þarna eigum við miklar gersemar sem við þurfum að varðveita á veglegan hátt.
Nú liggur beinast við að koma upp prentminjasafni á þessum merka sögustað. Það er reyndar byrjað að undirbúa það. Hólanefnd hefur ákveðið að koma á fót fyrsta prentminjasafni landsins. Nú þurfa allir bókagerðarmenn að leggjast á eitt og styðja við þessa ákvörðun nefndarinnar.
Árið 1940 á nafndegi Jóhanns Gutenbergs 24. júní fóru prentarar og aðrir bókagerðarmenn í merka för norður að Hólum og færðu Hóladómkirkju Guðbrandsbiblíu að gjöf. Það sýndi hvað stéttin mat mikils þennan stað og verk Guðbrands. Nú þurfum við að bæta um betur og koma þar upp veglegu prentminjasafni.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Hólar í Hjaltadal er merkur staður.
Prentminjasafn væri að mörgu leyti athyglisvert en sennilega yrði það einungis yfir sumartímann sem grundvöllur væri fyrir því.
Fyrir um 30 árum eða um páskana 1980 kom eg í Gutenbergsafnið í þýsku borginni Mainz við Rínarfljót. Þar voru eldri prentarar að störfum í samskonar umhverfi og frumkvöðlarnir. Þeir þrykktu á handgerðan pappír með gamalli vínpressu. Þeir héldu stutta fyrirlestra og þar kom margt fróðlegt fram. T.d. reyndist gamla Gutenberg erfitt að finna heppilegt skinn á áhaldið sem notað er til að bera farvann á letrið. Það tók hann langan tíma asð detta niður á hundsleðrið en sem kunnugt er, er skinn hundsins án svitaholna. Gutenberg var stöðugt að glíma við það viðfangsefni að koma í veg fyrir að loftbólur mynduðust á letrinu en það vildi klessast og verða ógreinilegt.
Það var margt áhugavert sem þarna mátti sjá sem eg gleymi aldrei.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 19.8.2009 kl. 09:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.