Samkeppnisstofnun á villigötum

Það er ástæða til þess að endurskoða lögin um Samkeppnisstofnun. Afhverju? Jú, þau virka öfugt. Varðandi  matvöruverslanir á almennum markaði, þá er útkoman sú að Bónus, sú verslun sem hefur boðið lægsta verð undfarin 20 ár og bjargað mörgum alþýðuheimilum, t.d. með því að hafa mjólkina á mjög lágu verði, sú verslun er kærð og látin svara til saka um ólöglega samkeppni. Ég get nefnt sem dæmi um vinsældir Bónusbúðanna, að fólk kemur hingað til Hveragerðis, alla leið frá Þorlákshöfn, til þess að versla, vegna þess að þeir hafa enga Bónusbúð þar nið´rá ströndinni. - Varðandi verslun með bækur þá er dæmið þannig. Jóhanni Páli í Forlaginu var skipað að losa sig við eitthvað af útgáfubókum sínum vegna þess að hann hefði svo stóra sneið af heildarútgáfu bóka. Jóhann bauð þá til sölu útgáfuréttinn á bókum Laxness og eitthvað fleira. Enginn bauð í réttinn og útkoman er sú að bækur nóbelsskáldsins eru ekki lengur til á markaði. Er einhver sem skilur svona ráðslag. Þeir sem sitja í Samkeppnisstofnun ættu að fara í endurmenntun. Það er nóg í boði.

Fram til lýðræðis!

Það var gott að hlusta á þáttinn ,,Fram til lýðræðis" á Rás 1 í gærkvöldi. (þáttur Árna Þórs Árnasonar og Ævars Kjartanssonar) Gestur þáttarins var Sigurður Líndal og fór á kostum enda kennir hann við þrjá háskóla í landinu!!! Geri aðrir betur. Hann kom m.a. inn á Evrópuumræðuna og benti á að hún væri nú ekki mjög rökmikil, það væri eins og sumir hefðu þetta sem trúarbrögð og að það myndi bjarga öllu ef við gengjum í Evrópusambandið. Þetta er náttúrlega hin mesta fyrra. Við myndum bara færa valdið til Brussel. Og það væri alveg þveröfugt við það sem við gerðum þegar við vorum í sjálfstæðisbaráttunni forðum daga. Þetta er alveg rétt hjá Sigurði. Ákvarðanatakan færist til Brussel og það verður miklu lengra til valdhafanna. Þar af leiðandi höfum við miklu minni áhrif en við höfum nú. Ekki færum til Brussel til að mótmæla óréttlátum valdshöfum.

Ef við göngum í Evrópusambandið má búast við að það verði flutt inn svo mikið af landbúnaðarvörum frá Evrópu að íslenski landbúnaðurinn legðist niður. Og viljum við það? Landbúnaðarvörur frá S-Evrópu eru t.d. þekktar fyrir að vera svo gegnsýrðar af eitri sem sprautað er á þær að þær geta verið stórhættulegar. Nei takk þá er betra að fá íslenskar landbúnaðarvörur sem eru miklu heilbrigðari. Neytendasamtökin íslensku eru alltof höll undir þessi Evrópu-trúarbrögð. Þeir einblína bara á verðið og segja að við myndum fá ódýrari vörur, sem er rétt, en tala ekkert um heilbrigði framleiðslunnar. Það á að meta þetta út frá öllum þáttum og taka síðan ákvörðun um hvað við eigum að gera.

Sjávarútvegurinn er líka mikilvægt atriði. Nú kemur það á daginn að það er hann sem gæti helst bjargað okkur á næstunni. Bankakerfið er hrunið og ekki hægt að treysta á það lengur. Við þurfum að skapa verðmæti til að flytja út og það er nógur fiskur í sjónum kringum landið ef við bara finnum hann. Nú er von til þess að fiskigengdin sé að aukast og þá eigum við að reyna að hafa fiskirannsóknarskipin úti á sjó og leita að nýjum tegundum, en ekki að hafa þau bundin við bryggju. Nú er t.d. farið að veiða makríl í stórum stíl. Einu sinni veiddist hér ekkert af skötusel. Nú er það dýrasta fisktegundin.

Á þennan hátt eigum við að ganga fram til lýðræðis og nýs þjóðfélags.


Hverjir eiga sökina?

Hannes Hólmsteinn prófessor: Hann er aðalpáfinn sem á mesta sök á því hvernig komið er fyrir okkur núna. Frjálshyggjuröflið í honum s.l. 30 ár er líklega það sem margir háttsettir menn í Sjálfstæðisflokknum hafa smitast af.

Davíð Oddsson seðlabankastjóri: Það var hann sem gaf tóninn með háu launin. Skapofsamaður sem aldrei hefði átt að koma nálægt pólitík, stórhættulegur eiginhagsmunaseggur og skrítið að hann skyldi trúa öllu sem Hannes Hólmsteinn predikaði. Maður fer óvart að hugsa til Þriðja ríkisins.

Geir H. Haarde forsætisráðherra: Maðurinn sem framkvæmir frjálshyggjustefnuna og hefur komið því í verk sem hún boðar, t.d. einkavæðinguna og að lækka skatta hjá fyrirtækjum.

Fjármálaeftirlitið: Jónas Fr. Jónsson með 1.700.000 kr. mánaðarlaun og fyrir hvað? Fyrir að fylgjast ekki nógu vel með. Þá hefði verið betra að hafa Gísla Gíslason í Speli sem forstjóra.

Stjórn: 

Aðalstjórn: Jón Sigurðsson, hagfræðingur, formaður,Sigríður Thorlacius, lögfræðingur, varaformaður,Stefán Svavarsson, endurskoðandi.

Varamenn:Kjartan Gunnarsson, skrifstofustjóri iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti,Þuríður Jónsdóttir, héraðsdómslögmaður,Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur Seðlabanka Íslands.


Hátekjuskattur er sjálfsagður

Ég skil ekki af hverju Ingibjörg Sólrún vill ekki hátekjuskatt. Það er ekki trúverðugt að segja að allir verði að leggja sitt af mörkum og hlífa svo hátekjumönnunum. Þetta gengur ekki. Ég er hræddur um að Persson hefði ekki verið ánægður með þetta. Við krefjumst þess að Samfylkingarfólk komi vitinu fyrir formanninn. Hvernig er með þennan aðstoðarmann hennar sem talaði um ruglið í Ögmundi í þættinum ,,Fram til lýðræðis". Vill hún ekki láta að sér kveða. Það hlýtur að muna um það sem kæmi frá hátekjufólki. Er ekki líka hægt að segja að það muni ekkert um það sem á að skera niður hjá iðnnemum? Nú, mér finnst að Ingibjörg Sólrún geti ekki annað en komið á hátekjuskatti, jafnvel þó hún segi að hann sé táknrænn og muni ekki um hann. Þetta er nauðsynlegt samt. Annars ætti Samfylkingin að slíta stjórnarstarfinu strax.
mbl.is Hátekjuskattur bara táknrænn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Röksemdir fyrir fleiri álverksmiðjum hrundar

Á einni nóttu hrundu allar röksemdir sjálfstæðismanna og Framsóknar um að rétt væri að byggja hér fleiri álverksmiðjur til þess að bæta stöðu íslensks atvinnulífs. Álverð hefur skyndilega lækkað svo mikið að við getum ekki treyst á það lengur til að afla gjaldeyris. Sömu rökin hafa verið notuð hér undanfarin ár og voru uppi á sjöunda áratugnum þegar verið var að reisa álverksmiðjuna í Straumsvík. Þá átti hún að bjarga öllu þegar sjávarútvegurinn var alltaf á heljarþröm. - Ég er alveg viss um það að smáiðnaður er miklu betri leið til þess að bjarga okkur í þeim nauðum sem við erum í núna heldur en stóriðja. Ég tala nú ekki um það hvernig á málum hefur verið haldið, að selja útlendingum orkuna fyrir smánarverð og hvað kostar það okkur. Eyðileggjum heil útivistarsvæði með fallegri náttúru. Er virkilega meiningin að bora um 100 borholur á Hellisheiði?!!! Núna hafa verið boraðar um 50 og þá kemur í ljós að brennisteinsmengunin er svo mikil í Reykjavík, að það fellur á silfur, snertifletir í viðkvæmum tæknibúnaði eyðileggjast og það þriðja er, að mengunin gæti verið hættuleg fólki í nágrenni við virkjanirnar.

Við eigum ekki að byggja fleiri álverksmiðjur fyrir útlendinga. Við eigum að geyma orkuna og nota hana fyrir okkur sjálf, seinna.Hér ætti heldur að efla íslenskan iðnað og bæta við allskonar smáiðnaði eins og Danir hafa gert. Við ættum að beina menntuninni inn á aðra braut og innleiða skyldunám í handiðnaði, þegar barnaskóla lýkur. Við höfum ekki þörf fyrir alla þessa menntun í lögfræði og viðskiptum. Svo er það listiðnaðurinn og hönnunin sem býður okkur upp á svo margt á svo mörgum sviðum. Byggjum upp nýtt Ísland með nýrri hugsun, færumst nær Evrópu en fjarlægjumst Ameríku.


mbl.is Getum ekki treyst á álið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífeyrissjóðamál

Laun stjórnarmanna lífeyrissjóðanna voru til umræðu í gær í Morgunblaðinu og þar kemur fram að í lífeyrissjóðnum mínum, Sameinaða lífeyrissjóðnum, að þar eiga stjórnarmenn að taka sjálfir ákvörðun um hvort þeir vilji lækka í launum núna strax. Svo er það ákvörðun ársfundar að ákveða endanleg laun þeirra. Ársfundur er nú væntanlega ekki fyrr en næsta vor. Síðan segir formaður stjórnar hvað hann hafi í laun, 1 og 1/2 miljón á mánuði skilst mér, en inni í þeirri tölu eru líka laun fyrir að vera í stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða. Mér finnst þetta nú vera heldur há laun fyrir ekki meira starf. Sextán sinnum meira en það sem ég fæ í eftirlaun í dag. Hann gæti alveg lækkað sig niðrí 940.000 kr. á mánuði og þætti mörgum það ansi rífleg laun. Það er áberandi núna í fjármálakreppunni hvað menn eru áfjáðir í að lækka launin sín. Það er eins og þeir sjái það núna fyrst að þau hafi kannski verið heldur há. - Á almennum fundi sem haldinn var nýlega í Sameinaða lífeyrissjóðnum var talað um það, að það þyrfti kannski að lækka eftirlaunin okkar þessara eldri sjóðfélaga, af því að það standi í lögum. Orðrétt af heimasíðu sjóðsins: ,,of snemmt er að kveða upp úr um hvort grípa þurfi til lækkunar lífeyris og réttinda um næstu áramót en lögum samkvæmt ber lífeyrissjóðum að grípa til ráðstafana ef munur á eignum og skuldbindingum er meiri en 10%." Í lok október var þessi munur um 11,3%.

Nú vil ég segja það, að ef það er eitthvert lagaákvæði sem segir að það verði að lækka lífeyrisgreiðslur okkar, þá er bara að breyta þeim í óákveðinn tíma meðan þessi fjármálakreppa varir. Þá mætti líka setja inn í þessi lög fast ákvæði um hámark launa starfsmanna og stjórnarmanna sjóðanna. Og fleiru mætti breyta, t.d. að eftirlaunafólkið sjálft ætti fulltrúa í stjórnum sjóðanna. Þá mætti líka vera ákvæði um að konur ættu jafnmarga fulltrúa og karlmenn í sjóðsstjórnunum. Það er sko sannarlega kominn tími til að þessir hópar fái aðild að stjórnum sjóðanna. Og er nokkuð vit í því að stjórnendur lífeyrissjóðanna séu á hærri launum en stjórnendur landsins.

Það er kominn tími til að endurskoða aðkomu atvinnurekenda að lífeyrissjóðunum því þeir hafa allt of mikil áhrif þar og nýta sér þau til að skara eld að sinni köku. Við bókagerðarmenn stofnuðum okkar lífeyrissjóði (prentara og bókbindara) fyrir um hálfri öld og þá var þetta gert í kjarasamningum. Samkomulag var gert við atvinnurekendur um að stofna lífeyrissjóði með því að borga 4% af launum okkar í þá og atvinnurekendur greiddu 6%. - Við höfðum krafist 15% launahækkunar fyrir þessa samninga en fengum lífeyrissjóðina í staðinn og enga launahækkun. Stjórnir bókagerðarfélaganna töldu strax og lýstu því yfir að lífeyrissjóðirnir væru eign meðlima sinna þar sem þeir greiða til þeirra af launum sínum, og ekki sé annað hægt en líta á greiðslu vinnuveitenda í sjóðina öðruvísi en sem hluta af vinnulaunum. Atvinnurekendur hafa því engan rétt til þess að hafa fulltrúa sína í stjónum sjóðanna. Burt með þá. Það er full ástæða til þess að endurskoða þessi mál nú þegar umræða er í gangi í þjóðfélaginu um ábyrgð stjórna lífeyrissjóðanna. Við sem stofnuðum lífeyrissjóðina eigum þá, en ekki atvinnurekendur.


Persson hinn sænski

Göran Persson fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar hélt ræðu hér á Íslandi í dag og var töluvert ánægður með sjálfan sig. Hann er talinn að hafa leitt Svía út úr fjármálakreppunni sem geisaði þar um 1992. Hann sagðist hafa verið hataðasti maður Svíþjóðar á þessum tíma. Hann þóttist samt ekki vilja segja okkur fyrir verkum, en taldi að það hefði verið gott hjá Svíum að ganga í ESB og aðspurður fannst honum óráð að skipta um stjórn við þessar aðstæður. - Ég spyr nú! Hugsar Persson ekkert út í það, að það treysta fáir Íslendingar þeirri ríkisstjórn sem núna situr við stjórnvölinn. Hins vegar var eitt gott sem hann sagði og það var það, að við ættum ekki að framkvæma allt sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segði okkur að gera, heldur gera það sem við teldum að best væri að gera.

Hjólreiðabrautir við þjóðvegi

Þegar við ökum á bílum á fjölförnustu vegum landsins eins og t.d. austur fyrir fjall, upp í Borgarfjörð eða út á Reykjanes, þá kemur það oft fyrir að hjólreiðafólk verður á vegi manns. Oftast er það svo að það hjólar vinstra meginn á veginum og í mikilli umferð þarf maður annaðhvort að hægja á sér og eiga von á aftanákeyrslu eða beygja inn á veginn til vinstri og aka fram úr, sem er stórhættulegt vegna umferðar á móti. Það er tímaspursmál hvenær verður stórslys af þessum sökum og þess vegna er bráðnauðsynlegt að fara að huga að því að leggja hjólabrautir með þjóðvegum landsins. Ég hef tekið eftir því að í Árnessýslu eru hestabrautir lagðar meðfram helstu vegum og er það til fyrirmyndar. ég hef annars aldrei séð nokkurn ríða á þessum vegum. En þá spyr ég. Er ekki komin full þörf á að um leið og nýr vegur er hannaður eins og t.d. tvöföldun Suðurlandsvegar austur í Árborg, að leggja sérhjólabrautir jafnframt um leið. Það er orðin svo mikil umferð um Austurveg og Suðurlandsundirlendið að það er komin full þörf á að koma þessu í framkvæmd. Þetta svæði allt er orðið eitt vinnusvæði og samgangur á milli litlu bæjanna er töluverður. Hjólabrautir eru krafan í dag. Það eru fleiri en ferðamenn sem myndu hafa gagn af þessu, það eru alltaf fleiri og fleiri Íslendingar sem taka hjólhestinn í notkun og stuðla þannig að betra umhverfi og heilsusamlegri hreyfingu.

Draugur uppvakinn

  • Það er með ólíkindum hvað margir uppvakningar hafa átt heima í Framsóknarflokknum gegnum tíðina. Einu sinni áttum við Ölfusingar og Hvergerðingar einn slíkan, Jónas frá Hriflu. Hann bjó á sumrin í Fífilbrekku hér undir Reykjafjallinu, keyrði um á fínum Pachard bíl, en átti dálítið erfitt með að keyra og mæta öðrum bílum. Hann lét því gera sérstaka afleggjara með stuttu millibili, á Krísuvíkurveginum, sem gárungarnir kölluðu ,,Jónasa". Þegar kom að því að Hvergerðingar rifu sig úr samstarfi við Ölfusinga og mynduðu nýtt sveitarfélag, þá átti Jónas stóra rullu í þeim leik, ásamt Guðjóni A. Sigurðssyni í Gufudal stórbónda og Unnsteini Ólafssyni skólastjóra á Garðyrkjuskólanum á Reykjum. Hvergerðingar sem voru orðnir seinþreyttir á framkvæmdaleysi Ölfushrepps stofnuðu nýtt sveitarfélag, en fengu aðeins smásneið af landi Reykja hinum megin Varmár, þ.e. lóðina í kringum sundlaugina Laugaskarð þar sem framfaramaðurinn Lárus J. Rist hafði staðið fyrir sundlaugarbyggingu ásamt ungmennafélögum á Suðurlandi. Auðvitað áttu Hvergerðingar heimtingu á því að fá alla Reykjatorfuna í sinn hlut; ríkið átti jörðina hvort sem var; en einhver ómennsk framsóknarstefna var í gangi um að það skyldi gert sem minnst fyrir ævintýramennina í Hveragerði eins og einn bóndinn orðaði það á fundi um skiptingu hreppsins. Aldís Hafsteinsdóttir núverandi bæjarstjóri í Hveragerði er fyrst til að vekja athygli á þessu máli og heimta rétt okkar Hvergerðinga til landsins. Mér finnst að nú eigi að gera alvöru úr hlutunum og fylgja þeim fast eftir. Það þarf að leggja fram frumvarp á Alþingi um þetta mál og fá það í gegn á næsta þingi. Þetta ætti að vera auðvelt ef sjálfstæðismenn styðja bæjarstjóra sinn. Þorlákshafnarbúar skilja náttúrlega ekkert í málinu eins og Ólafur Áki bæjarstjóri þeirra sagði og presturinn Baldur staglast á því að um Hveragerðisdeild Sjálfstæðisflokksins sé að ræða. Við frábiðjum okkur slíkar sendingar og það í fallegu kirkjunni okkar, sem hefur einn besta hljómburð sem til er á landinu.Ráðherrar geta breytt þessu máli ef þeir hafa dug til. Hvað gerði ekki Hannibal Valdimarsson þegar hann fékk sneið af þessu landi fyrir verkalýðshreyfinguna í Ölfusborgum og skulu honum ávallt færðar þakkir fyrir það. Fólkið sem býr á Reykjum þarf alltaf að fara í gegnum bæinn okkar til þess að komast til síns heima. Þetta svæði í kringum Hveragerði á að sjálfsögðu að tilheyra sveitarfélaginu, þó ekki væri litið á það nema frá landfræðilegu sjónarmiði. Og Reykjatorfan hefur ávallt verið í Hveragerði í hugum fólks á svæðinu. Mér finnst að við ættum að slíta öllu samstarfi við Þorlákshöfn ef þeir ekki skilja sjónarmið okkar Hvergerðinga. Hvergerðingar ættu að geta búið til nýjan kirkjugarð í sínu landi og Ölfushreppur getur þá bara átt Kotstrandarkirkjugarð í friði fyrir okkur. 
  • En nú er kominn nýr uppvakningur framsóknar til sögunnar. Óskar Bergsson heitir hann og boðar nýja trú á landið og atvinnuuppbyggingu í Reykjavík, þar sem allt er í kaldakoli í pólitíkinni. Og það á að fórna okkur Hvergerðingum einu sinni enn. Fyrri meirihluti í Reykjavík var búinn að slá Bitruvirkjun af, eftir harða baráttu umhverfisverndarsinna, en nú á að halda áfram með Bitruvirkjun, og af hverju? Af því Orkuveita Reykjavíkur er búinn að eyða um 1 miljarði í rannsóknir á svæðinu. Það eru peningarnir sem eiga að fá að ráða, frekjan í OR sem flennir sig út um allar koppagrundir með tilraunaborholur á borholur ofan og óafsakanlegan útblástur brennisteinsvetnis (H2S) skv. grein Pálma Stefánssonar efnaverkfræðings í Mbl. 14.8.2008, með þeim afleiðingum að hann hindrar súrefnisupptöku og lamar öndun hjá fólki. Við Hvergerðingar erum steinsnar frá þessari virkjun og því verður mikil loftmengun frá henni í Hveragerði. Bæjarstjórinn okkar hefur sagt sína skoðun á málinu og tekið afstöðu með sínu fólki, bæjarbúum. Hvað um börnin í Hveragerði? Hvers eiga þau að gjalda? Af hverju er ekki farið í heilstætt umhverfismat á virkjunum á Kolviðarhóli, Hverahlíð og Bitru? Óskar Bergsson segir þá vitlausustu setningu sem ég hef lengi séð í viðtali í Mbl. í dag: ,,En Bitruvirkjun er á Hellisheiði, nánast undir háspennulínunum, og ef við getum ekki virkjað þar, þá veit ég ekki um neinn stað á Íslandi þar sem við getum borað eftir heitu vatni." Sem sagt, það er í lagi að bora þar af því Bitran er undir háspennulínunum. Það er ekkert minnst á mengun frá þessari virkjun og áhrif af henni á okkur Hvergerðinga, eða jafnvel Reykvíkinga, eins og verið var að tala um fyrir nokkru síðan. Þá er ekkert minnst á náttúruperluna þarna og svæðið í kring sem útivistarsvæði landsmanna allra. - Í þessu sambandi vil ég segja við Óskar. Þegar Orkuveitan boraði í hrauninu vestan við Hveradali þá komu þeir allt í einu niður á heitavatnsæð sem þeir vissu ekkert um. Væri ekki ráð fyrir Óskar að fylgjast dálítið betur með hvað er að gerast. Ég gæti t.d. trúað því að það mætti finna nóg af borsvæðum í óbyggðum á Reykjanesi, lengra frá náttúruperlum á borð við Bitru.Það er hörmung að sjá framkvæmdirnar vestan við Hellisheiði þar sem vatnspípurnar liggja í hrauninu beggja vegna vegar. Auðvitað átti að leggja þær í jörð. Og að sjá allar háspennulínurnar uppi á Hellisheiði, það er ömurlegt. En þetta viðgengst með vitlausum lögum eða lagaleysi. Ísland er löngu orðið stjórnlaust land og það er tímabært að taka í taumana.

Á daufum ljósum

Ég skrifaði nýlega blogggrein um umferðina á Hellisheiði og vakti athygli á lélegu eftirliti lögreglu með bifreiðum sem eru ljóslausar öðrum megin. Hafa sem sagt bara eitt ljós og þegar maður mætir þeim þá er eins og um mótorhjól sé að ræða.

Nú keyrði um þverbak í gærkvöldi. Ég tók rútuna á Umferðamiðstöðinni í Reykjavík kl. 9.00 austur í Hveragerði. Ég var eini farþeginn. Þegar við komum að Kringlumýrarbraut stöðvaði bílstjórinn á útskoti, en hann var búinn að tala í símann alla leið og keyra með annari hendi. Það var slydduhríð og lélegt skyggni. Bílstjórinn fór út og skoðaði ljósin að framan. Það virtist eitthvað í ólagi með rafmagnið. Þá renndi bíll upp að okkur og það var skipt um bílstjóra. Eldri maður settist við stýrið. Hann bauð ekki gott kvöld og þagði. Mér fannst þetta skrítið. Ég spurði hvort ég fengi ekki að hlusta á útvarpið, það var spurningakeppni framhaldsskólanna. Það umlaði eitthvað í manninum. Hann kveikti ekki á útvarpinu. Ég sá strax að það var meira en lítið að. Þurrkurnar voru ekki hafðar í gangi. Ég uppgötvaði að rafmagnið var alveg að fjara út af bílnum. Mér hraus hugur við þegar aðvörunarpíp og rautt ljós birtist í mælaborðinu. Það umlaði enn í manninum þegar ég spurði hvort rafmagnið væri að detta út.

Að keyra á ljóslitlum áætlunarbíl í slydduhríð með óvirkar þurrkur austur fyrir fjall er óðs manns æði.

Ég skil ekki enn þá hvernig við komumst yfir heiðina, en það var eins og bílstjórinn hefði röntgensjón í myrkrinu og hríðinni. Þjónusta af þessu tagi er ekki til fyrirmyndar og mér finnst að yfirvöld eigi að taka í taumana. Þetta sérleyfi var veitt stuttu fyrir síðustu kosningar og mér finnst að það ætti ekki að endurnýja það. Það ætti að taka upp strætisvagnaferðir í öruggum farartækjum sem venjulegir menn aka, en ekki þumbarar á borð við þennan einkennilega mann sem ók rútunni á fimmtudagskvöldið austur í Hveragerði og á Selfoss.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband