Færsluflokkur: Bækur

Biblían er sem bögglað roð fyrir brjósti mínu

Mér datt í hug þessi vísa sem einn ágætur maður fór með þegar hann hafði hraðlesið Biblíuna:

Biblían er sem bögglað roð fyrir brjósti mínu,
gleypti ég hana alla í einu,
svo að ekki kom að gagni neinu.

Hvað er eiginlega að ske hjá Kirkjufeðrunum? Er það virkilegt að þessi gamla virðulega stofnun ætli nú að verða að steini eins og tröllin í gamla daga. Halldór í Holti er stórmóðgaður ef lögum verður breytt þannig að prestar fái leyfi til að staðfesta samvist samkynhneigðra. Biskup er með málamiðlun um að prestum verði heimilt að staðfesta samvist, en lögð áhersla á að um jafngilda athöfn og hjónaband sé að ræða. Hins vegar verði staðið við hefðbundinn skilning á orðinu hjónaband sem sáttmála fullvaxta karls og konu. Þriðji hópurinn talar um hjónavígslu staðfestrar samvistar. - Halldór í Holti og hinir holtaþórarnir í Skálholti og Reykholti vilja engu breyta og hóta að leggja fram breytingatillögu um að prestar þjóðkirkjunnar yrðu ekki lengur löggiltir hjónavígslumenn. Það er eins og þeir haldi að jörðin sé flöt enn þá og hafi aldrei snúist, hvorki um sjálfa sig eða í kringum sólina.

Biskup varpaði nýlega sprengju út í þjóðfélagið þegar hann sagði að það væri að kasta hjónabandinu út á haug ef samkynhneigðir væru gefnir saman af prestum!!! Hvernig var það, skapaði ekki Guð samkynhneigða menn eins og okkur hina. Er það virkilegt að stofnunin Kirkjan ætli að klofna á svona einföldu máli? Hvernig væri að hafa samband við Guð úr því orðið er hjá Guði og spyrja hann. Ég er viss um að hann er orðinn löngu þreyttur á þessari vitleysu í okkur mönnunum. Það er ekki við samkynhneigða að sakast. Það er fyrst og fremst Guð. Og hvar er fyrirgefningin. Ég var búinn að fyrirgefa biskupi, en nú blossar þetta upp aftur og ég spyr: Getið þið ekki fyrirgefið og lifað saman í sátt og samlyndi.

Ný Biblía var að koma út og biskup færði forsetanum eintak í beinni útsendingu. Mig minnir að sá fyrrnefndi hafi við það tækifæri sagt í fjölmiðlum að þessi texti væri sá besti í heiminum. Er það nú rétt ? Er ekki margt orðið úrelt í þessari gömlu bók. Sköpunarsagan er náttúrlega algert rugl. Maður er undrandi á því að til séu menn í dag sem trúa því að konan hafi verið sköpuð úr rifi mannsins sem áður hafði verið skapaður úr leir. Og það er með ólíkindum hvernig farið er með konurnar í þessari helgu bók. Guð skapaði þær af því að hann sá að manninn vantaði meðhjálp eins og stendur í Mósebók. Páll postuli sagði að þær ættu að vera manninum undirgefnar. Og í Korintubréfi er talað um kynlífið sem saurlifnað. Jæja, er það nú svo. Ég er ansi hræddur um, að það væri ekkert mannkyn til í dag ef farið hefði verið eftir því sem stendur í Biblíunni.

En boðskapur Krists er góður og boðorðin tíu er gott að hafa hjá sér í horninu á þessum síðustu og verstu tímum.


Bókaveisla í Kolaportinu

Það var alveg óvenjulega líflegt í Kolaportinu um helgina. Stærsti fornbókasalinn er að hætta og lækkaði verðið niður í 100 - 300 kr. Þeir sem eru í þessum bransa alla daga fóru hamförum og höfðu aldrei komist í jafn feitt. Og ég verð að segja það að þarna mátti sjá margan góðan gripinn sem ekki er oft á glámbekk. Ég náði t.d. í Minningarrit um Ungmennafélög Íslands 1907-1937 í samantekt Geirs Jónassonar á 300 kr. - Gjafverð, fyrir þetta grundvallarrit um merka hreyfingu, sem mér finnst að ætti að vera skyldulesning í framhaldsskólum landsins. Þarna er sagt frá brautryðjendunum sem skópu lýðveldið og stofnuðu ungmennafélögin. Þá var þarna mikið safn ýmissa góðra ljóðabóka sem eru orðnar mjög sjaldgæfar. - Það væri mikill sjónarsviptir að því ef Kolaportið yrði lagt niður á þessum stað sem það er núna. Þetta er eins og mikil og góð félagsmiðstöð, þar sem fólk kemur saman um helgar og spjallar og fær sér kaffibolla eða verslar lítið eitt. Ég held að ráðamenn ættu að líta til þess að hlúa frekar að þessari starfsemi heldur en að leggja hana niður.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband