Tvöföldun Suðurlandsvegar

Fyrir síðustu kosningar voru flest blöð hér um slóðir uppfull af greinum um tvöföldun Suðurlandsvegar. En það er eins og það hafi flestir þagnað um þetta þjóðþrifamál þegar búið var að kjósa. Ég fer þennan veg a.m.k. einu sinni í viku, oft tvisvar og það er alltaf sama sagan. Umferðin er alveg brjálæðisleg. Ef maður keyrir ekki á 80-90 km hraða niður Kamba þá er reynt að fara fram úr manni, stundum hægra megin og þá hrekkur maður í kút. Um helmingur bílaflotans eru jeppar eða stærri bílar og þeir virðast vera svo kraftmiklir að 100 km hraði virðist vera þeirra kjörhraði frekar en löglegur hraði!! Mér hefur oft dottið í hug hvort ekki mætti nota Blönduós-aðferðina hér austan fjalls. Ég er viss um að það myndi skila einhverjum árangri og ég held að það sé eitthvað byrjað á þessu. Að gera lögregluna meira sýnilega er vissulega það sem verkar á almenning. Sjáið þið bara hvað það hefur góð áhrif á Blönduósi og einnig núna upp á síðkastið í Reykjavík þar sem sjálfur lögreglustjórinn gengur um á meðal fólksins á götunni og spjallar við það. Það minnir mig dálítið á Dodda-bækurnar, en er vissulega áhrifamikið og aðdáunarvert. Þessi maður ætti skilið að fá Fálkaorðuna.

Það væri gaman að fá að vita hvenær á að byrja á tvöföldun Suðurlandsvegar. Var ekki búið að ákveða að byrja á þessu ári? Það eina sem hefur gerst í sumar er smákafli á Hellisheiði sem var malbikaður þar sem vegurinn var verstur. Þetta er rétt austan við vegamótin upp að Hverahlíð, þ.e.a.s. þegar maður keyrir í austur. Þarna er vegurinn stórhættulegur því það er smábeygja á honum og í hríðum og skafrenningi á veturna sést beygjan ekki og maður getur lent út í malarkanti allt í einu og þegar það er mikil umferð eins og alltaf er, þá er maður í hættu þegar maður reynir að komast inn á veginn aftur. Ég vil biðja vegagerðarmenn að athuga þetta þegar þeir byrja að leggja nýjan veg yfir heiðina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband