30.8.2007 | 21:52
Húsin við Laugaveg, nr. 4 og 6
Það er sorglegt að Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt niðurrif húsanna 4-6 við Laugaveg. Þetta eru hús sem sýna gömlu Reykjavík eins og hún var á fyrri helming aldarinnar sem leið. Í öðru þessara húsa nr. 6 var lagður grundvöllurinn að stofnun Alþýðusambands Íslands. Ég þori að fullyrða að þar var haldinn undirbúningsfundur þeirra 5 félaga sem stóðu að stofnun þess. Þetta sagði mér Guðgeir Jónsson bókbindari, sem lést 1987. Bókbindarar áttu formann þessarar nefndar Þorleif O. Gunnarsson sem lengi var eigandi Félagsbókbandsins í Ingólfsstræti. Það voru aðallega þrjú félög sem stóðu að stofnun Alþýðusambandsins: Dagsbrún, Prentarafélagið og Bókbindarafélagið, en tvö nýstofnuð félög Hásetafélagið og Verkakvennafélagið Framsókn voru líka með. Stofnfundur ASÍ var hins vegar haldinn í Báruhúsinu sem þá var við Tjörnina, en það er nú löngu farið. Bókbindarafélagið var stofnað í gamla húsinu við Laugaveg 18 í risíbúð Pjeturs G. Guðmundssonar en hann var einn helsti forkólfur verkalýðshreyfingarinnar á fyrstu árum hennar. Það hús var mjög fallegt og stílhreint en var rifið þegar hús Máls og menningar var byggt. Mér finnst tillaga sem birtist í blöðunum nýlega frá Húsfriðunarnefnd mjög góð útfærsla á uppbyggingu á þessu svæði. og vera miklu betri en sú tillaga sem byggingafulltrúi borgarinnar hefur nú samþykkt. Ég skora á Borgarráð að endurskoða afstöðu sína og samþykkja heldur þá tillögu, því um hana gætu menn sameinast. Ég tek undir orð Margrétar Hallgrímsdóttur þjóðminjavarðar á forsíðu Morgunblaðsins á fimmtudaginn, þar sem hún segir: ,,Á Laugavegi gætu að mínu mati orðið mjög alvarleg mistök með freka niðurrifi gamalla húsa, því það skiptir miklu máli að halda í heildarmynd götunnar. Niðurrif í elstu hlutum borgarinnar á auðvitað ekki að eiga sér stað. Það þarf því að fara meira yfir þessi mál heildstætt og ræða þau meira. " Ég tek líka undir með leiðarahöfundi Morgunblaðsins í dag að hér sé um menningarsögulegt slys að ræða.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.