Jarðygla - framhald

Það fór illa með Jarðygluna mína. Þegar ég var búinn að finna eina á Blátoppnum, runnategund hér út í garði, fór ég með hana til Alla nágranna míns og setti hana í vatnsglasið sem hann safnar þeim í. Hún var fljót að drukkna og allar yglurnar sem Alli hafði tínt voru löngu dauðar. Þetta er eiginlega synd því þær eru svo fallegar lifandi og þetta verður eitt af því sem ég mun eiga bágt með að gera grein fyrir við stóra hliðið hjá Pjetri. En stundum verður maður að velja. Ég var líka að rækta runna sem ég vildi hafa í lagi, og vildi ekki láta ygluna éta nýgræðinginn. Og svo fór ég að hugsa um fiðrildin fallegu sem fyrir bragðið myndu ekki fæðast. Og hvað með fuglana sem biðu eftir fiðrildunum og ætluðu að hafa þau í matinn handa ungunum sínum. Þetta var orðin ein hringavitleysa. Ég hætti að hugsa svona og herti mig upp, fór bak við húsið og kíkti á Mispilinn sem hefur vaxið vel í sumar í öllu góðviðrinu og viti menn, þarna var ein heljarstór ygla og var hér um bil búin með greinina sem hún skreið á. Ég flýtti mér að ná í sultukrukku, skellti henni ofan í með lítilli blaðgrein svo hún hefði eitthvað að borða og setti svo plast fyrir opið. Hún hélt bara áfram að borða og virtist í fullu fjöri. Um morguninn daginn eftir leit ég upp í hillu á krukkuna og hún var þá tóm. Hún hafði étið sig út úr krukkunni og sást nú hvergi. Mér leist ekkert á og leitaði og leitaði um allt herbergið en varð að gefast upp. Þannig leið dagurinn og aldrei kom yglan í ljós. Jæja, á sunnudaginn er ég að ganga um stofugólfið og mæti þá yglunni sem hlykkjaðist frísklega um gólfið. Ég var fljótur að láta hana aftur í krukkuna og skrúfaði traust lok á hana með götum á. Síðan þetta skeði fyrir nokkrum dögum hefur hún frekar minnkað og skroppið saman og er nú orðin að púpu. Það verður gaman að sjá þegar fiðrildið kemur. Ég veit nákvæmlega hvernig það lítur út. Grátt og loðið að framan og mikilúðlegt. En kannski kemur ekkert fiðrildi. Við skulum sjá.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband