Ráðist á gamla fólkið

Spara á matinn. Hvernig er það, eru engin takmörk fyrir því hvernig hægt er að koma fram við gamla fólkið. Frétt í Fréttablaðinu í gær bendir til þess að nú eigi að fara að spara við það í mat á hjúkrunarheimilum Reykjavíkur. Og það fylgir fréttinni að orsökin sé ákvörðun Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur í fyrra að hækka laun starfsfólks. Mér finnst að nýja borgarstjórnin ætti að taka strax á þessu máli. Þetta má aldrei verða og ég skil ekki þessa ákvörðun Velferðarsviðs borgarinnar. Nú er búið að setja nýja manneskju í velferðarmálin og þá finnst mér að hún ætti að taka strax á þessu.

Svo er annað sem snýr að gamla fólkinu sem dvelur á öldrunarstofnunum. Það er látið borga með sér stundum tugi þúsunda króna á mánuði ef það fær einhverjar aukatekjur. Ég held að þetta hafi viðgengist lengi og snýr að Tryggingastofnun og öllum reglugerðarfrumskóginum þar. Á þessu ári komu ný lög sem áttu að taka fyrir þetta óréttlæti. Ég veit um tiltekið dæmi þar sem greiðslan var áður um 50.000 kr. á mánuði, en eftir breytinguna fór greiðslan niður í 25.000 kr. - Mér finnst að það ætti að afnema svona greiðslur. Gamla fólkið er búið að leggja svo mikið að mörkum til þjóðfélagsins í gegnum allt sitt líf að það ætti ekki að þurfa að borga með sér þegar það dvelst á öldrunarstofnun.

Það komst upp í fyrra að það var ekki þvegið af gamla fólkinu á sumum öldrunarstofnunum borgarinnar. Það hafði verið ákveðið að spara og aðstandendum var fengið þetta starf í hendur sem sumir voru orðnir aldraðir. Þvottahús hafði verið á sumum af þessum stöðum, en þau voru ekki lengur notuð vegna þess að það átti að spara. Þessu var svo kippt í liðinn, rétt fyrir kosningar. Það er grátlegt að það þurfi kosningar til þess að menn fari að hugsa af sanngirni.

Þá eru það lyfjamálin. Sumt gamalt fólk er svo heilabilað að það getur ekkert tjáð sig um þessi mál. Það getur ekki mótmælt, því það er ekkert mark tekið á því sem það segir. Það er bara álitið ruglað. Ég hef stundum haft það á tilfinningunni að það sé verið að gefa þessu fólki alltof mikið af lyfjum. Gamall og hrumur líkami þolir ekki þessa meðferð. Ef aðstandendur vilja skipta sér af þessu þá er því svarað á þann hátt að það hafi ekki vit á hlutunum. Mér finnst að það ætti að fara í saumana á þessum málum og móta almenna stefnu, en það ætti ekki að láta læknana alfarið um þessi mál.

Það eru mörg atriði sem betur mættu fara á elliheimilunum. Ég hef grun um að öldrunarheimilin í Reykjavík séu langt á eftir tímanum, en út á landi sé oft betri aðbúnaður að mörgu leyti. Það væri gott ef haldin væri ráðstefna um þessi mál. Við þurfum að taka upp hanskann fyrir gamla fólkið, því oft hefur það ekki burði til þess sjálft.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Útlendingar sem þurfa á heilbrigðisþjónustu hér á landi eiga rétt á túlkaþjónustu. Ættu íslendingar ekki að eiga sama rétt þegar stór hluti starfsfólks talar ekki íslensku? Ekki hvað síst gamla fólkið okkar. Þetta er mismunun.

Hólmdís Hjartardóttir (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 12:51

2 identicon

Ég held þú hafir ekki rétt fyrir þér varðandi lyfin. Öll lyfjameðferð er ætluð til að bæta líðan fólks. Ég veit dæmi um að fólk borgar yfir 200þus ril hjúkrunarheimila. Ætti að fá dágóða þjónustu fyrir það. Vildi bara bæta þessu við.

Hólmdís Hjartardóttir (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 12:57

3 Smámynd: Svanur Jóhannesson

Þú ert ekki sammála mér um lyfjamálin. Ég held því hins vegar fram að þau séu oft í megnasta ólagi. Þetta er gott markmið sem þú segir: ,,Öll lyfjameðferð er ætluð til að bæta líðan fólks". En þetta er ekki svo einfalt. Það eru mýmörg dæmi um það að þegar gamalt fólk kemur inn á elliheimili þá er það með um allt að 20 tegundir af lyfjum, ávísað frá læknum út í bæ. Ég veit um dæmi um 16 tegundir á sólarhring, sem hefur verið gefið inn á elliheimili. Í sumum tilfellum var um örfandi lyf (þunglyndislyf) að ræða, en jafnframt lyf sem áttu að slá á ofvirkni þess, sem sagt dópa það niður. Hvaða vit er í því að gefa lyf sem verka þvert á hvert annað? Og svo er annað. Hvernig er lyfjagjöfum framfylgt í dag? Hvernig er atburðarásin? Er ekki eitthvert sérfyrirtæki sem sér um skömmtum lyfja? Ég held að það sé ekki lengur þannig að hjúkrunarfræðingar skammti lyfin á hverjum stað. Er þetta ekki allt orðið autómatískt í gegnum þetta fyrirtæki? Það væri gaman að fá þetta upp á borðið og eigum við að treysta læknum sem fyrirskipa svona lyfjatökur? Eru þeir ekki hallir undir lyfjafyrirtækin? Eða hvað gengur þeim til?

Svanur Jóhannesson, 16.10.2007 kl. 14:49

4 Smámynd: Svanur Jóhannesson

Varðandi fyrri athugasemd þína um að gamla fólkið ætti að fá túlkaþjónustu þá er þetta góður púnktur hjá þér. Ég hef ekki heyrt þetta sjónarmið áður. Á sumum elliheimilum er um 60% af starfsfólkinu útlendingar og ég veit að gamla fólkið er stundum örvæntingarfullt þegar þeir eru að tala við það. Það sem er verra er að þarna er oft um mörg þjóðerni að ræða, td. tælenskt, pólskt o.s.frv. Það þyrfti því að hafa marga túlka á hverjum stað, en það er alveg rétt sem þú segir. Þetta er mismunun.

Svanur Jóhannesson, 16.10.2007 kl. 14:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband