Ungmennafélag Íslands 100 ára

Helga Guðrún Guðjónsdóttir var einróma kjörin formaður Ungmennafélags Íslands á þingi þess sem lauk á Þingvöllum í dag. Það er í fyrsta skipti sem kona er kjörin formaður sambandsins í 100 ára sögu þess .

Það er ekki úr vegi í tilefni 100 ára afmælisins að birta kvæði föður míns sem er á heimasíðu UMFÍ - Þrastarlundur. - Ungmennasambandið er stofnað 2. ágúst 1907, en í morgun hófst sambandsþing þess á Þingvöllum.

Kvæðið heitir Í Þrastarskógi og er í bókinni Álftirnar kvaka sem kom út 1929 á fæðingarári mínu. Einhver sagði að starf UMFÍ snerist nú bara um íþróttir og peninga frá Lottó. Ég vona að svo sé ekki. Hins vegar hef ég séð það að bláhvíti fáninn blaktir ekki lengur við hún í Þrastarlundi þegar maður keyrir þar fram hjá. Það er kannski tímanna tákn. Nú er sá bláhvíti hvergi sjáanlegur nema fyrir ofan dyrnar á Menntaskólanum á Laugarvatni vegna þess að hann er ennþá í merki skólans. Ég legg til að sambandsþing samþykki að hefja fánann aftur til vegs.

Býður ró um bjarkargöng
blómum gróin prýði. -
Þú átt nóg af þýðum söng
Þrastaskógur fríði.

Langt frá iðu lagar-sands
leita ég friðar glaður. -
Æsku-liði Ísalands
ertu griðarstaður.

Hljóðnar glaumur borgar-brags,
bönd og taumar slakna.-
Hefjast straumar helgidags,
-heiðir draumar vakna.

Skógasálin hlýja hlær,
huldumálin stirllir,
geisla-báli í brjóstin slær,
blóma-skálar fyllir.

Rætur haggast. - Reynir hátt,
rís við daggarfalli.
Svönum vaggar vatnið blátt.
Vorið flaggar gulli.

Skógarsálin hlýja hlær,
huldumálin stillir,
geisla-báli í brjóstin slær,
blóma-skálar fyllir.

Rætur haggast. - Reynir hátt
rís við daggarfulli.
Svönum vaggar vatnið blátt.
Vorið flaggar gulli.

Flögra mæður grein af grein. -
Greikka bræður sporið.
- Staka fæðist ein og ein,
eða kvæði um vorið.

Hugi friðar skógar-skart,
- skjálfa viðir grænir.
Út um hliðið óskabjart,
æsku-liðið mænir.

Þungar rastir sækja'um Sog,
- sveinar hasta á niðinn,
taka fast í árar - og
undir þrastakliðinn.

Fylla barminn fögur heit,
fjör í armi kvikar. -
Leikur bjarmi um sækna sveit,
- sól á hvarmi blikar.

Alt vill gróa - Æsku-björk
öðlast ró og stækkar.
Enn mun þróast þjóðar-mörk,
- þessi skógur hækkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband