Leit að brjóstakrabbameini

Krabbameinsfélag Íslands er góð og þörf stofnun sem hefur bjargað lífi margra, bæði kvenna og karla. Ég bara minnist þess þegar ég fór á námskeið þar, í að hætta að reykja, fyrir um 20 árum og það bar árangur. Ég snarhætti og hef ekki byrjað að reykja aftur og þakka enn og aftur fyrir að hafa notið aðstoðar þessa góða félags til þess.

Í október á hverju ári er vakin athygli á brjóstakrabbameini segir í frétt í blöðunum í dag. Það sem ég hef oft undrast í sambandi við þetta mál er að þegar leitarstöð Krabbameinsfélagsins býður konum upp á röntgenmyndatöku, að þá er bara hluta kvenna sent bréf. Konur sem komnar eru yfir vissan aldur fá ekki bréf, en sagt er að þær séu velkomnar til stöðvarinnar. Nú er það svo að það það þarf oft að minna konur á að passa heilsu sína. Sérstaklega þegar þær eru komnar á aldur. Þær vilja gleyma þessu sjálfsagða atriði. Ég veit þetta af því góð skólasystir mín dó um aldur fram úr brjóstakrabbameini, af því hún gleymdi að fara í skoðun eftir að hætt var að boða hana vegna aldurs. Hún hefði í dag verið svona tæplega áttræð ef hún hefði lifað.

Nú spyr ég. Af hverju eru ekki allar konur boðaðar í skoðun hjá leitarstöðinni ? Og hvers eiga eldri konur að gjalda að það er ekki gert? Krabbameinsfélagið nýtur mikilla styrkja héðan og þaðan til sinnar starfsemi og ég býst við að þeir sem styrkja það ætlist til þess að það sé ekki þessi mismunun í gangi. Er ekki verið að brjóta mannréttindi á gömlum konum með þessu háttalagi?

Það væri gaman að fá svar við þessu frá Krabbameinsfélaginu eða frá Mannréttindanefnd Reykjavíkur, því stór hluti kvenna landsins er jú þar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband