19.8.2008 | 08:35
Hjólreiðabrautir við þjóðvegi
Þegar við ökum á bílum á fjölförnustu vegum landsins eins og t.d. austur fyrir fjall, upp í Borgarfjörð eða út á Reykjanes, þá kemur það oft fyrir að hjólreiðafólk verður á vegi manns. Oftast er það svo að það hjólar vinstra meginn á veginum og í mikilli umferð þarf maður annaðhvort að hægja á sér og eiga von á aftanákeyrslu eða beygja inn á veginn til vinstri og aka fram úr, sem er stórhættulegt vegna umferðar á móti. Það er tímaspursmál hvenær verður stórslys af þessum sökum og þess vegna er bráðnauðsynlegt að fara að huga að því að leggja hjólabrautir með þjóðvegum landsins. Ég hef tekið eftir því að í Árnessýslu eru hestabrautir lagðar meðfram helstu vegum og er það til fyrirmyndar. ég hef annars aldrei séð nokkurn ríða á þessum vegum. En þá spyr ég. Er ekki komin full þörf á að um leið og nýr vegur er hannaður eins og t.d. tvöföldun Suðurlandsvegar austur í Árborg, að leggja sérhjólabrautir jafnframt um leið. Það er orðin svo mikil umferð um Austurveg og Suðurlandsundirlendið að það er komin full þörf á að koma þessu í framkvæmd. Þetta svæði allt er orðið eitt vinnusvæði og samgangur á milli litlu bæjanna er töluverður. Hjólabrautir eru krafan í dag. Það eru fleiri en ferðamenn sem myndu hafa gagn af þessu, það eru alltaf fleiri og fleiri Íslendingar sem taka hjólhestinn í notkun og stuðla þannig að betra umhverfi og heilsusamlegri hreyfingu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:28 | Facebook
Athugasemdir
Mikið er ég þér sammála, Svanur. Það er iðulega verið að hvetja fólk til að hreyfa sig meira, stunda hjólreiðar, göngur en hvergi er gert ráð fyrir plássi í umferðinni fyrir þessa umhverfisvænu reiðskjóta. Það er eingöngu í borginni sem stígar liggja milli helstu hverfa og umhverfis borgina og með stærstu stofnbrautunum. Þetta er mjög góð tillaga hjá þér og hvet ég til þess að hún verði framkvæmd. Hjólreiðastíga, takk!
Sigurlaug B. Gröndal, 19.8.2008 kl. 08:53
Ef vegaxlirnar væru allstaðar eins og þær eiga að vera, sæmilega breiðar, þá gætu hjólreiðamenn notað þær. Ég hef reyndar aldrei rekist á neinn sem hjólar vinstra megin á veginum, en hins vegar hef ég oft keyrt framhjá tveimur sem hjóla hlið við hlið. Það er auðvitað stórhættulegt líka. Svo finnst mér þeir sem hanna þessa hjólreiðastíga í bænum ekki vera alveg búnir að ná upp í það að margir nota hjólið sem samgöngutæki og vilja þá bara komast frá A til B á sem stystum tíma. Það þýðir að allir þessir frístundahjólreiðastígar, sem fara út og suður, eru nánast ónothæfir.
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 25.8.2008 kl. 22:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.