Fram til lýðræðis!

Það var gott að hlusta á þáttinn ,,Fram til lýðræðis" á Rás 1 í gærkvöldi. (þáttur Árna Þórs Árnasonar og Ævars Kjartanssonar) Gestur þáttarins var Sigurður Líndal og fór á kostum enda kennir hann við þrjá háskóla í landinu!!! Geri aðrir betur. Hann kom m.a. inn á Evrópuumræðuna og benti á að hún væri nú ekki mjög rökmikil, það væri eins og sumir hefðu þetta sem trúarbrögð og að það myndi bjarga öllu ef við gengjum í Evrópusambandið. Þetta er náttúrlega hin mesta fyrra. Við myndum bara færa valdið til Brussel. Og það væri alveg þveröfugt við það sem við gerðum þegar við vorum í sjálfstæðisbaráttunni forðum daga. Þetta er alveg rétt hjá Sigurði. Ákvarðanatakan færist til Brussel og það verður miklu lengra til valdhafanna. Þar af leiðandi höfum við miklu minni áhrif en við höfum nú. Ekki færum til Brussel til að mótmæla óréttlátum valdshöfum.

Ef við göngum í Evrópusambandið má búast við að það verði flutt inn svo mikið af landbúnaðarvörum frá Evrópu að íslenski landbúnaðurinn legðist niður. Og viljum við það? Landbúnaðarvörur frá S-Evrópu eru t.d. þekktar fyrir að vera svo gegnsýrðar af eitri sem sprautað er á þær að þær geta verið stórhættulegar. Nei takk þá er betra að fá íslenskar landbúnaðarvörur sem eru miklu heilbrigðari. Neytendasamtökin íslensku eru alltof höll undir þessi Evrópu-trúarbrögð. Þeir einblína bara á verðið og segja að við myndum fá ódýrari vörur, sem er rétt, en tala ekkert um heilbrigði framleiðslunnar. Það á að meta þetta út frá öllum þáttum og taka síðan ákvörðun um hvað við eigum að gera.

Sjávarútvegurinn er líka mikilvægt atriði. Nú kemur það á daginn að það er hann sem gæti helst bjargað okkur á næstunni. Bankakerfið er hrunið og ekki hægt að treysta á það lengur. Við þurfum að skapa verðmæti til að flytja út og það er nógur fiskur í sjónum kringum landið ef við bara finnum hann. Nú er von til þess að fiskigengdin sé að aukast og þá eigum við að reyna að hafa fiskirannsóknarskipin úti á sjó og leita að nýjum tegundum, en ekki að hafa þau bundin við bryggju. Nú er t.d. farið að veiða makríl í stórum stíl. Einu sinni veiddist hér ekkert af skötusel. Nú er það dýrasta fisktegundin.

Á þennan hátt eigum við að ganga fram til lýðræðis og nýs þjóðfélags.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband