Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hjólreiðabrautir við þjóðvegi

Þegar við ökum á bílum á fjölförnustu vegum landsins eins og t.d. austur fyrir fjall, upp í Borgarfjörð eða út á Reykjanes, þá kemur það oft fyrir að hjólreiðafólk verður á vegi manns. Oftast er það svo að það hjólar vinstra meginn á veginum og í mikilli umferð þarf maður annaðhvort að hægja á sér og eiga von á aftanákeyrslu eða beygja inn á veginn til vinstri og aka fram úr, sem er stórhættulegt vegna umferðar á móti. Það er tímaspursmál hvenær verður stórslys af þessum sökum og þess vegna er bráðnauðsynlegt að fara að huga að því að leggja hjólabrautir með þjóðvegum landsins. Ég hef tekið eftir því að í Árnessýslu eru hestabrautir lagðar meðfram helstu vegum og er það til fyrirmyndar. ég hef annars aldrei séð nokkurn ríða á þessum vegum. En þá spyr ég. Er ekki komin full þörf á að um leið og nýr vegur er hannaður eins og t.d. tvöföldun Suðurlandsvegar austur í Árborg, að leggja sérhjólabrautir jafnframt um leið. Það er orðin svo mikil umferð um Austurveg og Suðurlandsundirlendið að það er komin full þörf á að koma þessu í framkvæmd. Þetta svæði allt er orðið eitt vinnusvæði og samgangur á milli litlu bæjanna er töluverður. Hjólabrautir eru krafan í dag. Það eru fleiri en ferðamenn sem myndu hafa gagn af þessu, það eru alltaf fleiri og fleiri Íslendingar sem taka hjólhestinn í notkun og stuðla þannig að betra umhverfi og heilsusamlegri hreyfingu.

Draugur uppvakinn

  • Það er með ólíkindum hvað margir uppvakningar hafa átt heima í Framsóknarflokknum gegnum tíðina. Einu sinni áttum við Ölfusingar og Hvergerðingar einn slíkan, Jónas frá Hriflu. Hann bjó á sumrin í Fífilbrekku hér undir Reykjafjallinu, keyrði um á fínum Pachard bíl, en átti dálítið erfitt með að keyra og mæta öðrum bílum. Hann lét því gera sérstaka afleggjara með stuttu millibili, á Krísuvíkurveginum, sem gárungarnir kölluðu ,,Jónasa". Þegar kom að því að Hvergerðingar rifu sig úr samstarfi við Ölfusinga og mynduðu nýtt sveitarfélag, þá átti Jónas stóra rullu í þeim leik, ásamt Guðjóni A. Sigurðssyni í Gufudal stórbónda og Unnsteini Ólafssyni skólastjóra á Garðyrkjuskólanum á Reykjum. Hvergerðingar sem voru orðnir seinþreyttir á framkvæmdaleysi Ölfushrepps stofnuðu nýtt sveitarfélag, en fengu aðeins smásneið af landi Reykja hinum megin Varmár, þ.e. lóðina í kringum sundlaugina Laugaskarð þar sem framfaramaðurinn Lárus J. Rist hafði staðið fyrir sundlaugarbyggingu ásamt ungmennafélögum á Suðurlandi. Auðvitað áttu Hvergerðingar heimtingu á því að fá alla Reykjatorfuna í sinn hlut; ríkið átti jörðina hvort sem var; en einhver ómennsk framsóknarstefna var í gangi um að það skyldi gert sem minnst fyrir ævintýramennina í Hveragerði eins og einn bóndinn orðaði það á fundi um skiptingu hreppsins. Aldís Hafsteinsdóttir núverandi bæjarstjóri í Hveragerði er fyrst til að vekja athygli á þessu máli og heimta rétt okkar Hvergerðinga til landsins. Mér finnst að nú eigi að gera alvöru úr hlutunum og fylgja þeim fast eftir. Það þarf að leggja fram frumvarp á Alþingi um þetta mál og fá það í gegn á næsta þingi. Þetta ætti að vera auðvelt ef sjálfstæðismenn styðja bæjarstjóra sinn. Þorlákshafnarbúar skilja náttúrlega ekkert í málinu eins og Ólafur Áki bæjarstjóri þeirra sagði og presturinn Baldur staglast á því að um Hveragerðisdeild Sjálfstæðisflokksins sé að ræða. Við frábiðjum okkur slíkar sendingar og það í fallegu kirkjunni okkar, sem hefur einn besta hljómburð sem til er á landinu.Ráðherrar geta breytt þessu máli ef þeir hafa dug til. Hvað gerði ekki Hannibal Valdimarsson þegar hann fékk sneið af þessu landi fyrir verkalýðshreyfinguna í Ölfusborgum og skulu honum ávallt færðar þakkir fyrir það. Fólkið sem býr á Reykjum þarf alltaf að fara í gegnum bæinn okkar til þess að komast til síns heima. Þetta svæði í kringum Hveragerði á að sjálfsögðu að tilheyra sveitarfélaginu, þó ekki væri litið á það nema frá landfræðilegu sjónarmiði. Og Reykjatorfan hefur ávallt verið í Hveragerði í hugum fólks á svæðinu. Mér finnst að við ættum að slíta öllu samstarfi við Þorlákshöfn ef þeir ekki skilja sjónarmið okkar Hvergerðinga. Hvergerðingar ættu að geta búið til nýjan kirkjugarð í sínu landi og Ölfushreppur getur þá bara átt Kotstrandarkirkjugarð í friði fyrir okkur. 
  • En nú er kominn nýr uppvakningur framsóknar til sögunnar. Óskar Bergsson heitir hann og boðar nýja trú á landið og atvinnuuppbyggingu í Reykjavík, þar sem allt er í kaldakoli í pólitíkinni. Og það á að fórna okkur Hvergerðingum einu sinni enn. Fyrri meirihluti í Reykjavík var búinn að slá Bitruvirkjun af, eftir harða baráttu umhverfisverndarsinna, en nú á að halda áfram með Bitruvirkjun, og af hverju? Af því Orkuveita Reykjavíkur er búinn að eyða um 1 miljarði í rannsóknir á svæðinu. Það eru peningarnir sem eiga að fá að ráða, frekjan í OR sem flennir sig út um allar koppagrundir með tilraunaborholur á borholur ofan og óafsakanlegan útblástur brennisteinsvetnis (H2S) skv. grein Pálma Stefánssonar efnaverkfræðings í Mbl. 14.8.2008, með þeim afleiðingum að hann hindrar súrefnisupptöku og lamar öndun hjá fólki. Við Hvergerðingar erum steinsnar frá þessari virkjun og því verður mikil loftmengun frá henni í Hveragerði. Bæjarstjórinn okkar hefur sagt sína skoðun á málinu og tekið afstöðu með sínu fólki, bæjarbúum. Hvað um börnin í Hveragerði? Hvers eiga þau að gjalda? Af hverju er ekki farið í heilstætt umhverfismat á virkjunum á Kolviðarhóli, Hverahlíð og Bitru? Óskar Bergsson segir þá vitlausustu setningu sem ég hef lengi séð í viðtali í Mbl. í dag: ,,En Bitruvirkjun er á Hellisheiði, nánast undir háspennulínunum, og ef við getum ekki virkjað þar, þá veit ég ekki um neinn stað á Íslandi þar sem við getum borað eftir heitu vatni." Sem sagt, það er í lagi að bora þar af því Bitran er undir háspennulínunum. Það er ekkert minnst á mengun frá þessari virkjun og áhrif af henni á okkur Hvergerðinga, eða jafnvel Reykvíkinga, eins og verið var að tala um fyrir nokkru síðan. Þá er ekkert minnst á náttúruperluna þarna og svæðið í kring sem útivistarsvæði landsmanna allra. - Í þessu sambandi vil ég segja við Óskar. Þegar Orkuveitan boraði í hrauninu vestan við Hveradali þá komu þeir allt í einu niður á heitavatnsæð sem þeir vissu ekkert um. Væri ekki ráð fyrir Óskar að fylgjast dálítið betur með hvað er að gerast. Ég gæti t.d. trúað því að það mætti finna nóg af borsvæðum í óbyggðum á Reykjanesi, lengra frá náttúruperlum á borð við Bitru.Það er hörmung að sjá framkvæmdirnar vestan við Hellisheiði þar sem vatnspípurnar liggja í hrauninu beggja vegna vegar. Auðvitað átti að leggja þær í jörð. Og að sjá allar háspennulínurnar uppi á Hellisheiði, það er ömurlegt. En þetta viðgengst með vitlausum lögum eða lagaleysi. Ísland er löngu orðið stjórnlaust land og það er tímabært að taka í taumana.

Bílar með biluð ljós

Við höfum verið dálítið á ferðinni að undanförnu, farið nokkrum sinnum til Reykjavíkur og lent í myrkri á heimleið austur fyrir fjall. Það hefur verið áberandi í seinni tíð að maður mætir oft bílum sem eru bara með annað ljósið að framan. Þetta er mjög bagalegt í svartamyrkri og gæti sjálfsagt valdið slysum. Það er eins og maður sé að mæta mótorhjóli en svo eru þetta breiðir bílar. Í gær keyrði þetta um þverbak, við mættum hverjum bílnum á fætur öðrum sem voru ljóslausir öðrum megin. Ég taldi fimm bíla á stuttum tíma.

Nú spyr ég. Af hverju er ekkert eftirlit með þessu lengur? Einu sinni þurftu allir bílar að koma í ljósaskoðun, mig minnir einu sinni á ári, á haustin, og fengu límmiða á rúðuna hjá sér. En það virðist ekki vera lengur og lítið eftirlit af hálfu lögreglu í þessum efnum því hún er svo fáliðuð. Að setja allt sitt traust á einstaklinginn virðist ekki ganga upp þegar kemur að ýmsum öryggismálum í þjóðfélaginu. Þetta er svona á fleiri sviðum. Nóg í bili.


Nýstárleg frétt

Bandaríkjamenn eru loksins að gefast upp í Írak. Vonandi láta Íslendingar aldrei aftur teyma sig í stríð og snúa baki við þessum stríðsherrum.

,,Fulltrúardeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt 50 milljarða dala aukafjárveitingu sem ætlað er að fjármagna stríðrekstur Bandaríkjanna í Írak og Afganistan. Fjárveitingin er hinsvegar háð þeim skilyrðum að George W. Bush Bandaríkjaforseti verði að hefja brottflutning hermanna frá Írak innan 30 daga og stefnt sé að því að bandarískir hermenn hverfi frá Írak í desember á næsta ári.

Í frumvarpinu er einnig lagt blátt bann við pyntingum. Fulltrúardeildin samþykkti aðeins 50 milljarða dala aukafjárveitingu í stað 200 milljarða dala líkt og Bandaríkjastjórn óskaði eftir."

Frétt sem birtist efst á mbl.is í morgun er komin langt aftur fyrir kl. 10, en það er rétt að lesa hana því hún segir margt um ástandið meðal almennings í Bandaríkjunum. Bush lætur sig ekki en almennir borgarar hugsa sitt ráð.


Leit að brjóstakrabbameini

Krabbameinsfélag Íslands er góð og þörf stofnun sem hefur bjargað lífi margra, bæði kvenna og karla. Ég bara minnist þess þegar ég fór á námskeið þar, í að hætta að reykja, fyrir um 20 árum og það bar árangur. Ég snarhætti og hef ekki byrjað að reykja aftur og þakka enn og aftur fyrir að hafa notið aðstoðar þessa góða félags til þess.

Í október á hverju ári er vakin athygli á brjóstakrabbameini segir í frétt í blöðunum í dag. Það sem ég hef oft undrast í sambandi við þetta mál er að þegar leitarstöð Krabbameinsfélagsins býður konum upp á röntgenmyndatöku, að þá er bara hluta kvenna sent bréf. Konur sem komnar eru yfir vissan aldur fá ekki bréf, en sagt er að þær séu velkomnar til stöðvarinnar. Nú er það svo að það það þarf oft að minna konur á að passa heilsu sína. Sérstaklega þegar þær eru komnar á aldur. Þær vilja gleyma þessu sjálfsagða atriði. Ég veit þetta af því góð skólasystir mín dó um aldur fram úr brjóstakrabbameini, af því hún gleymdi að fara í skoðun eftir að hætt var að boða hana vegna aldurs. Hún hefði í dag verið svona tæplega áttræð ef hún hefði lifað.

Nú spyr ég. Af hverju eru ekki allar konur boðaðar í skoðun hjá leitarstöðinni ? Og hvers eiga eldri konur að gjalda að það er ekki gert? Krabbameinsfélagið nýtur mikilla styrkja héðan og þaðan til sinnar starfsemi og ég býst við að þeir sem styrkja það ætlist til þess að það sé ekki þessi mismunun í gangi. Er ekki verið að brjóta mannréttindi á gömlum konum með þessu háttalagi?

Það væri gaman að fá svar við þessu frá Krabbameinsfélaginu eða frá Mannréttindanefnd Reykjavíkur, því stór hluti kvenna landsins er jú þar.


Óbeisluð orka

Ég tek undir með Björk Vilhelmsdóttur í Morgunblaðinu í morgun. Fyrir utan mál OR þarf líka að ræða þau mál sem snúa að smærri einingum samfélagsins svo sem húsnæðismálum og málefnum gamla fólksins. ,,Við erum til hvert fyrir annað og hver og einn skiptir máli". Björk er nú orðin formaður Velferðarráðs Reykjavíkur og býður til samstarfs. Húsnæðismálin eru henni ofarlega í huga. Það er vel. Ég sé ekki hvernig lágtekjufólk, skólanemendur og aðrir, eiga að fara að því að ná endum saman með hátt í 100.000 kr. í leigu á mánuði ! Mig minnir að Jóhanna Sigurðardóttir hafi líka ætlað að taka á þessu máli. Ég er viss um að samfylkingarkonurnar geta gert marga góða hluti saman. Ég vil sérstaklega benda þeim stöllum á viðtal við konu sem var í útvarpi Sögu í morgun hjá Arnþrúði Sigurðardóttur. Ég man ekki hvað hún heitir, en hún talaði um hvað hvað gamla fólkið fengi lélegt fæði á dvalarheimilunum. Þetta er sjálfsagt misjafnt, en mér fyndist að borgarstjóri, sem er að kynna sér umönnunarmál borgarinnar í dag , Björk og Jóhanna ættu öll saman, að láta gera könnun á ástandinu. Það er ekki viðunandi að fólk sé hálfsvelt á öldrunarstofnunum Reykjavíkurborgar.

Hlýnun jarðar í Þorlákshöfn

Ég varð fyrir vonbrigðum með vin minn Sigurð Grétar Guðmundsson pípulagningameistara, sérfræðing Morgunblaðsins í pípulögnum eftir lestur greinar hans í Mbl í morgun, þar sem hann fullyrðir að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu tískufyrirbrigði. Ég vil benda honum á að þó nú sé að renna upp hlýindaskeið á jörðinni, þá er ennþá meiri ástæða til þess að vera á varðbergi gagnvart loftslagsbreytingum heldur en áður. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á greinum Sigurðar og klippt þær út úr Mogganum og geymt, því hann hefur skrifað mikið um hitalagnir í gólfum og það finnst mér gott, því svoleiðis er hitinn hjá mér. Ég vona bara að þessi grein Sigurðar verði ekki til þess að það flýti fyrir því að það flæði undir hann í Þorlákshöfn.

Ráðist á gamla fólkið

Spara á matinn. Hvernig er það, eru engin takmörk fyrir því hvernig hægt er að koma fram við gamla fólkið. Frétt í Fréttablaðinu í gær bendir til þess að nú eigi að fara að spara við það í mat á hjúkrunarheimilum Reykjavíkur. Og það fylgir fréttinni að orsökin sé ákvörðun Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur í fyrra að hækka laun starfsfólks. Mér finnst að nýja borgarstjórnin ætti að taka strax á þessu máli. Þetta má aldrei verða og ég skil ekki þessa ákvörðun Velferðarsviðs borgarinnar. Nú er búið að setja nýja manneskju í velferðarmálin og þá finnst mér að hún ætti að taka strax á þessu.

Svo er annað sem snýr að gamla fólkinu sem dvelur á öldrunarstofnunum. Það er látið borga með sér stundum tugi þúsunda króna á mánuði ef það fær einhverjar aukatekjur. Ég held að þetta hafi viðgengist lengi og snýr að Tryggingastofnun og öllum reglugerðarfrumskóginum þar. Á þessu ári komu ný lög sem áttu að taka fyrir þetta óréttlæti. Ég veit um tiltekið dæmi þar sem greiðslan var áður um 50.000 kr. á mánuði, en eftir breytinguna fór greiðslan niður í 25.000 kr. - Mér finnst að það ætti að afnema svona greiðslur. Gamla fólkið er búið að leggja svo mikið að mörkum til þjóðfélagsins í gegnum allt sitt líf að það ætti ekki að þurfa að borga með sér þegar það dvelst á öldrunarstofnun.

Það komst upp í fyrra að það var ekki þvegið af gamla fólkinu á sumum öldrunarstofnunum borgarinnar. Það hafði verið ákveðið að spara og aðstandendum var fengið þetta starf í hendur sem sumir voru orðnir aldraðir. Þvottahús hafði verið á sumum af þessum stöðum, en þau voru ekki lengur notuð vegna þess að það átti að spara. Þessu var svo kippt í liðinn, rétt fyrir kosningar. Það er grátlegt að það þurfi kosningar til þess að menn fari að hugsa af sanngirni.

Þá eru það lyfjamálin. Sumt gamalt fólk er svo heilabilað að það getur ekkert tjáð sig um þessi mál. Það getur ekki mótmælt, því það er ekkert mark tekið á því sem það segir. Það er bara álitið ruglað. Ég hef stundum haft það á tilfinningunni að það sé verið að gefa þessu fólki alltof mikið af lyfjum. Gamall og hrumur líkami þolir ekki þessa meðferð. Ef aðstandendur vilja skipta sér af þessu þá er því svarað á þann hátt að það hafi ekki vit á hlutunum. Mér finnst að það ætti að fara í saumana á þessum málum og móta almenna stefnu, en það ætti ekki að láta læknana alfarið um þessi mál.

Það eru mörg atriði sem betur mættu fara á elliheimilunum. Ég hef grun um að öldrunarheimilin í Reykjavík séu langt á eftir tímanum, en út á landi sé oft betri aðbúnaður að mörgu leyti. Það væri gott ef haldin væri ráðstefna um þessi mál. Við þurfum að taka upp hanskann fyrir gamla fólkið, því oft hefur það ekki burði til þess sjálft.


Svikamyllan REI

Það er margt sem kemur upp á yfirborðið eftir orrahríð síðustu daga. Það er með ólíkindum hvað menn láta hafa eftir sér, eins og t.d. að hafa skrifað undir þennan einokunarsamning við REI án þess að hafa lesið samninginn áður!!! En það segist fyrrv. borgarstjóri hafa gert. Eftir á kom í ljós að þessi tillaga sem samþykkt var á eigendafundinum veitti REI einkarétt á þjónustu OR utan Íslands til tuttugu ára. Þetta eru ekkert annað en svik af hálfu þeirra manna sem borgarstjóri treysti. Og hverjir voru það sem hann treysti ? Hann segir það ekki beinlínis. Það hljóta að hafa verið forstjóri Orkuveitunnar og líklega Bjarni Ármannsson og einhverjir væntanlegir fjárfestar eða fjárgróðapungar. Svo kom líka í ljós að þessi fundur var líklega óleglega boðaður og þá spyr ég. Er þá ekki málið dautt og ónýtt. Þetta er ekki löglegur gjörningur. Eða hvað? Mér finnst að þegar menn haga sér á þennan hátt eins og þessir ráðgjafar og fjárglæframenn þá eigi að sækja þá til saka og dæma þá í fangelsi eins og hverja aðra óbótamenn, því það má telja þessi brot þeirra til glæpaverka. Allavega ætti að leysa þá frá störfum nú þegar, ef þeir á einhvern hátt koma ennþá nálægt áhrifastörfum í þjóðfélaginu.

Nýtt stríð í austri

Bandaríkin eru að undirbúa nýtt stríð í Austurlöndum, nú gegn Íran. Frá þessu var sagt í ríkisútvarpinu í fyrrakvöld. Það er meira að segja svo að þau eru tilbúin með hernaðaráætlun. Það á fyrst að varpa sprengjum á kjarnorkuver Írana og síðan á að hefja stanslausar sprengjuárásir á allar helstu borgir þeirra í nokkrar vikur !!! Það virðist ekki vera nóg aðgert í því að drepa fólk. Fyrst Persaflóastríðið, svo Afganistan og þá Írak og enn er barist þar. Bush sagði nýlega að þar yrði staðsettur her um ókomin ár og gerði ráð fyrir langri hersetu. Sagt er að Bandaríkin ætli að tryggja sér olíulyndir á þessum slóðum. Fleiri hundruð þúsunda af óbreyttum borgurum, aðallega konur og börn hafa fallið og sjálfir missa þeir svo og svo marga hermenn á hverjum degi.

Af hverju þegja allir!!! - Það er kominn tími til að þjóðir heims rísi upp á móti þessum heimsvaldasinnum í vestri. Mér finnst að við ættum að skera upp herör gegn Bandaríkjamönnum. Við eigum að hætta að kaupa vörur þaðan. Þegar ég kom í Hagkaup í dag var búið að dreifa bandaríska fánanum um alla búð og auglýstir voru ,,Amerískir dagar". ??? Ég segi stopp! Kaupum ekki amerískar vörur. Við þurfum ekkert á þeim að halda.

Við þurfum heldur ekki neinn her. Burt með Norðmenn og dani. Við þurfum ekki á þeirra her að halda.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband