Húsin við Laugaveg, nr. 4 og 6

Það er sorglegt að Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt niðurrif húsanna 4-6 við Laugaveg. Þetta eru hús sem sýna gömlu Reykjavík eins og hún var á fyrri helming aldarinnar sem leið. Í öðru þessara húsa nr. 6 var lagður grundvöllurinn að stofnun Alþýðusambands Íslands. Ég þori að fullyrða að þar var haldinn undirbúningsfundur þeirra 5 félaga sem stóðu að stofnun þess. Þetta sagði mér Guðgeir Jónsson bókbindari, sem lést 1987. Bókbindarar áttu formann þessarar nefndar Þorleif O. Gunnarsson sem lengi var eigandi Félagsbókbandsins í Ingólfsstræti. Það voru aðallega þrjú félög sem stóðu að stofnun Alþýðusambandsins: Dagsbrún, Prentarafélagið og Bókbindarafélagið, en tvö nýstofnuð félög Hásetafélagið og Verkakvennafélagið Framsókn voru líka með. Stofnfundur ASÍ var hins vegar haldinn í Báruhúsinu sem þá var við Tjörnina, en það er nú löngu farið. Bókbindarafélagið var stofnað í gamla húsinu við Laugaveg 18 í risíbúð Pjeturs G. Guðmundssonar en hann var einn helsti forkólfur verkalýðshreyfingarinnar á fyrstu árum hennar. Það hús var mjög fallegt og stílhreint en var rifið þegar hús Máls og menningar var byggt. Mér finnst tillaga sem birtist í blöðunum nýlega frá Húsfriðunarnefnd mjög góð útfærsla á uppbyggingu á þessu svæði. og vera miklu betri en sú tillaga sem byggingafulltrúi borgarinnar hefur nú samþykkt. Ég skora á Borgarráð að endurskoða afstöðu sína og samþykkja heldur þá tillögu, því um hana gætu menn sameinast. Ég tek undir orð Margrétar Hallgrímsdóttur þjóðminjavarðar á forsíðu Morgunblaðsins á fimmtudaginn, þar sem hún segir: ,,Á Laugavegi gætu að mínu mati orðið mjög alvarleg mistök með freka niðurrifi gamalla húsa, því það skiptir miklu máli að halda í heildarmynd götunnar. Niðurrif í elstu hlutum borgarinnar á auðvitað ekki að eiga sér stað. Það þarf því að fara meira yfir þessi mál heildstætt og ræða þau meira. " Ég tek líka undir með leiðarahöfundi Morgunblaðsins í dag að hér sé um menningarsögulegt slys að ræða.


Framlenging á Sicko

Í gær hvatti ég ykkur til að sjá kvikmyndina Sicko, síðasti dagur væri í gær. Nú verður hún sýnd áfram, líklega vegna þess að það hefur verið svo góð aðsókn. Ég hvet ykkur til þess að fara nú á bíó og sjá þessa velgerðu og fróðlegu mynd. Það er nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því hvernig það þjóðfélag er sem við erum alltaf að færast nær og nær. Það getur verið að augu ykkar opnist fyrir þessu slæma þjóðfélagi sem er í vestri. Amerísk menning er ekki að mínu skapi. Byssumyndir og fjandsamlegt þjóðfélag á allan máta. Nei takk. Veljum heldur evrópska menningu eins og hún er best.

Sicko

Hvað er Sicko? Það er kvikmynd um heilbrigðisþjónustu Bandaríkjanna. Hún er með bestu myndum sem ég hef séð lengi, mjög vel gerð og sýnir á hnittinn hátt hvað Bandaríkin eru raunverulega mikið á eftir öðrum ríkjum í heilbrigðismálum. Fólk þarf að vera tryggt hjá einhverju tryggingarfélagi til þess að það sé tekið inn á spítala, annars er því bara hent út á götuna. Í myndinni er gerður samanburður við önnur lönd og mig minnir að Bandaríkin séu í 17 sæti. Við ættum frekar að taka okkur Evrópulönd til fyrirmyndar heldur en þennan hrylling sem viðgengst í þessu mesta ,,lýðræðisríki heims" Bandaríkjunum. Í Bretlandi, Frakklandi og Kanada er heilbrigðisþjónustan ókeypis. Jafnvel á Kúbu er hún greidd af almannafé. Besta heilbrigðisþjónustan á vegum Bandaríkjanna er í Quantanamo fangelsinu á Kúbu. Í guðana bænum sjáið þið Sicko, það er síðasta tækifærið í kvöld.

Jarðygla

Það var sýnd hryllingsmynd í sjónvarpinu nýlega um nýjan vágest í Hekluskógum. Það voru myndir af lirfunni Jarðyglu. (Ertuyglu?) Hún er með fallegastu lirfum sem ég hef séð lengi, ljós-langrákótt og mosagræn . En þegar maður sér svona mikið af henni eins og sýnt var frá Hekluskógum þá hryllir mann svoldið við henni. Þessi vágestur ræðst á Lúpínuna og bókstaflega fer um landið eins og eldur í sinu. Hún étur blöðin svo þau verða eins og gatasigti. Þegar ég var austur í Laugardal um helgina, nánar tiltekið í bústöðum bókagerðarmanna, sá ég þar nokkrar lirfur, sem lögðust á víði, lerki og lúpínu. En þar er hún í svo litlum mæli að það er ekki hægt að segja að hún sé plága heldur viðbót við fjölbreytta náttúru. Þegar ég kom svo heim í Lækjarbrún í Hveragerði eftir helgina þá mátti greina þar nokkrar lirfur sem virðast kunna vel við sig á runna sem heitir Blátoppur, en hún leggst ekki á Hansarósina sem er við hliðina. Nú vantar mig og fleiri hér í Lækjarbrúninni upplýsingar um hvort eitthvað er hægt að gera til þess að hafa hemil á þessu skaðræðisdýri, sem kannski gæti orðið að plágu eins og í Hekluskógum.

Tvöföldun Suðurlandsvegar

Fyrir síðustu kosningar voru flest blöð hér um slóðir uppfull af greinum um tvöföldun Suðurlandsvegar. En það er eins og það hafi flestir þagnað um þetta þjóðþrifamál þegar búið var að kjósa. Ég fer þennan veg a.m.k. einu sinni í viku, oft tvisvar og það er alltaf sama sagan. Umferðin er alveg brjálæðisleg. Ef maður keyrir ekki á 80-90 km hraða niður Kamba þá er reynt að fara fram úr manni, stundum hægra megin og þá hrekkur maður í kút. Um helmingur bílaflotans eru jeppar eða stærri bílar og þeir virðast vera svo kraftmiklir að 100 km hraði virðist vera þeirra kjörhraði frekar en löglegur hraði!! Mér hefur oft dottið í hug hvort ekki mætti nota Blönduós-aðferðina hér austan fjalls. Ég er viss um að það myndi skila einhverjum árangri og ég held að það sé eitthvað byrjað á þessu. Að gera lögregluna meira sýnilega er vissulega það sem verkar á almenning. Sjáið þið bara hvað það hefur góð áhrif á Blönduósi og einnig núna upp á síðkastið í Reykjavík þar sem sjálfur lögreglustjórinn gengur um á meðal fólksins á götunni og spjallar við það. Það minnir mig dálítið á Dodda-bækurnar, en er vissulega áhrifamikið og aðdáunarvert. Þessi maður ætti skilið að fá Fálkaorðuna.

Það væri gaman að fá að vita hvenær á að byrja á tvöföldun Suðurlandsvegar. Var ekki búið að ákveða að byrja á þessu ári? Það eina sem hefur gerst í sumar er smákafli á Hellisheiði sem var malbikaður þar sem vegurinn var verstur. Þetta er rétt austan við vegamótin upp að Hverahlíð, þ.e.a.s. þegar maður keyrir í austur. Þarna er vegurinn stórhættulegur því það er smábeygja á honum og í hríðum og skafrenningi á veturna sést beygjan ekki og maður getur lent út í malarkanti allt í einu og þegar það er mikil umferð eins og alltaf er, þá er maður í hættu þegar maður reynir að komast inn á veginn aftur. Ég vil biðja vegagerðarmenn að athuga þetta þegar þeir byrja að leggja nýjan veg yfir heiðina.


Kirkjubær í Færeyjum

Félag eldri borgara í Hveragerði stóð fyrir ferð til Færeyja í sumar og fóru 50 manns í þessa eftirminnilegu ferð. Kór eldri borgara söng í elliheimilinu í Runavík og í vinabæ Hveragerðis Toftum. Við fórum í siglingu í Vestmannabjörgin og í Þórshöfn fórum við í gamalt danshús og stigum færeyskan dans. Ég gerði mér ekki grein fyrir því áður hvað Færeyingar eru sérstakir. Maður fékk það strax á tilfinninguna að þessi litla þjóð væri komin miklu lengra á þroskabrautinni en við Íslendingar. Þeir reyna að varðveita svo vel þjóðareinkenni sín og gamla menningu. En þeir eru líka komnir í nútímann og eru búnir að bæta samgöngur mikið í seinni tíð með því að grafa jarðgöng á milli eyjanna sem eru átján talsins. Mig minnir að það eigi aðeins eftir að grafa göng til Suðureyjar en það verða lengstu jarðgöngin. Svo eru þeir búnir að stofna flugfélagið ATLANTIC AIRWAYS og eru þeir eina flugfélagið sem er með ferðir milli Reykjavíkur og Færeyja. Meðal þess sem mér fannst einna eftirminnilegast í ferðinni var að aka í rútubíl um eyjarnar og sjá landið. Og það var þetta sérstaka samband á milli dýranna sem vakti mesta athygli mína, það er að segja kindurnar sem eru hafðar í litlum girðingum og gæsir sem einnig eru girtar af. En svo kemur inn í þetta samspil þjóðarfuglinn Tjaldurinn, sem ég gerði mér ekki grein fyrir áður hvað mikið er af í eyjunum. Að sumu leyti fannst mér Tjaldurinn minna mig á heimaslóðir mínar Hveragerði, en þar er hann góður granni. Höggmyndin á aðaltorginu í Þórshöfn er líka lærdómsrík og minnir okkur á sjálfstæðisbaráttu færeyinga, en það er Tjaldur ( sem merkir Færeyjar) sem er að ráðast á Hrafninn (Dani) sem hefur líklega stolið frá honum eggi eða unga.

Þegar ég kom heim mundi ég eftir að ég átti bók sem er eftir Jóannes Patursson í Kirkjubæ, ekki þennan sem bauð okkur í kaffi og pönnukökur í gamla húsinu í Kirkjubæ, heldur þann sem var uppi fyrir um sextíu árum síðan. Hann samdi bókina ,,Við ókunnugum fólki til Kirkjubøar". Þar stendur að Magnúsarkirkjan (Múrinn) hafi verið byggð á árunum 1269-1308. Það sem er merkilegt við þessa kirkju er að þar eru geymd helg jarteikn, sem eru bein úr orkneyiska jarlinum St. Magnusi og úr íslenska biskupnum Þorláki helga. Fararstjórinn okkar Sveinur Tummasson skáld og rithöfundur sagðist vera viss um að þessi kirkja hefði verið fullbyggð og í notkun á sinni tíð, en danir segðu að færeyingar hefðu aldrei verið menn til að klára hana og þess vegna væri hún þaklaus og hálfbyggð. Ég held að Sveinur hafi rétt fyrir sér því ég hef séð álíka kirkjurústir í Visby á Gotlandi sem eru sagðar hafa verið í notkun einmitt á svipuðum tíma og Múrinn var byggður í Færeyjum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband