Hlýnun jarðar í Þorlákshöfn

Ég varð fyrir vonbrigðum með vin minn Sigurð Grétar Guðmundsson pípulagningameistara, sérfræðing Morgunblaðsins í pípulögnum eftir lestur greinar hans í Mbl í morgun, þar sem hann fullyrðir að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu tískufyrirbrigði. Ég vil benda honum á að þó nú sé að renna upp hlýindaskeið á jörðinni, þá er ennþá meiri ástæða til þess að vera á varðbergi gagnvart loftslagsbreytingum heldur en áður. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á greinum Sigurðar og klippt þær út úr Mogganum og geymt, því hann hefur skrifað mikið um hitalagnir í gólfum og það finnst mér gott, því svoleiðis er hitinn hjá mér. Ég vona bara að þessi grein Sigurðar verði ekki til þess að það flýti fyrir því að það flæði undir hann í Þorlákshöfn.

Ráðist á gamla fólkið

Spara á matinn. Hvernig er það, eru engin takmörk fyrir því hvernig hægt er að koma fram við gamla fólkið. Frétt í Fréttablaðinu í gær bendir til þess að nú eigi að fara að spara við það í mat á hjúkrunarheimilum Reykjavíkur. Og það fylgir fréttinni að orsökin sé ákvörðun Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur í fyrra að hækka laun starfsfólks. Mér finnst að nýja borgarstjórnin ætti að taka strax á þessu máli. Þetta má aldrei verða og ég skil ekki þessa ákvörðun Velferðarsviðs borgarinnar. Nú er búið að setja nýja manneskju í velferðarmálin og þá finnst mér að hún ætti að taka strax á þessu.

Svo er annað sem snýr að gamla fólkinu sem dvelur á öldrunarstofnunum. Það er látið borga með sér stundum tugi þúsunda króna á mánuði ef það fær einhverjar aukatekjur. Ég held að þetta hafi viðgengist lengi og snýr að Tryggingastofnun og öllum reglugerðarfrumskóginum þar. Á þessu ári komu ný lög sem áttu að taka fyrir þetta óréttlæti. Ég veit um tiltekið dæmi þar sem greiðslan var áður um 50.000 kr. á mánuði, en eftir breytinguna fór greiðslan niður í 25.000 kr. - Mér finnst að það ætti að afnema svona greiðslur. Gamla fólkið er búið að leggja svo mikið að mörkum til þjóðfélagsins í gegnum allt sitt líf að það ætti ekki að þurfa að borga með sér þegar það dvelst á öldrunarstofnun.

Það komst upp í fyrra að það var ekki þvegið af gamla fólkinu á sumum öldrunarstofnunum borgarinnar. Það hafði verið ákveðið að spara og aðstandendum var fengið þetta starf í hendur sem sumir voru orðnir aldraðir. Þvottahús hafði verið á sumum af þessum stöðum, en þau voru ekki lengur notuð vegna þess að það átti að spara. Þessu var svo kippt í liðinn, rétt fyrir kosningar. Það er grátlegt að það þurfi kosningar til þess að menn fari að hugsa af sanngirni.

Þá eru það lyfjamálin. Sumt gamalt fólk er svo heilabilað að það getur ekkert tjáð sig um þessi mál. Það getur ekki mótmælt, því það er ekkert mark tekið á því sem það segir. Það er bara álitið ruglað. Ég hef stundum haft það á tilfinningunni að það sé verið að gefa þessu fólki alltof mikið af lyfjum. Gamall og hrumur líkami þolir ekki þessa meðferð. Ef aðstandendur vilja skipta sér af þessu þá er því svarað á þann hátt að það hafi ekki vit á hlutunum. Mér finnst að það ætti að fara í saumana á þessum málum og móta almenna stefnu, en það ætti ekki að láta læknana alfarið um þessi mál.

Það eru mörg atriði sem betur mættu fara á elliheimilunum. Ég hef grun um að öldrunarheimilin í Reykjavík séu langt á eftir tímanum, en út á landi sé oft betri aðbúnaður að mörgu leyti. Það væri gott ef haldin væri ráðstefna um þessi mál. Við þurfum að taka upp hanskann fyrir gamla fólkið, því oft hefur það ekki burði til þess sjálft.


Svikamyllan REI

Það er margt sem kemur upp á yfirborðið eftir orrahríð síðustu daga. Það er með ólíkindum hvað menn láta hafa eftir sér, eins og t.d. að hafa skrifað undir þennan einokunarsamning við REI án þess að hafa lesið samninginn áður!!! En það segist fyrrv. borgarstjóri hafa gert. Eftir á kom í ljós að þessi tillaga sem samþykkt var á eigendafundinum veitti REI einkarétt á þjónustu OR utan Íslands til tuttugu ára. Þetta eru ekkert annað en svik af hálfu þeirra manna sem borgarstjóri treysti. Og hverjir voru það sem hann treysti ? Hann segir það ekki beinlínis. Það hljóta að hafa verið forstjóri Orkuveitunnar og líklega Bjarni Ármannsson og einhverjir væntanlegir fjárfestar eða fjárgróðapungar. Svo kom líka í ljós að þessi fundur var líklega óleglega boðaður og þá spyr ég. Er þá ekki málið dautt og ónýtt. Þetta er ekki löglegur gjörningur. Eða hvað? Mér finnst að þegar menn haga sér á þennan hátt eins og þessir ráðgjafar og fjárglæframenn þá eigi að sækja þá til saka og dæma þá í fangelsi eins og hverja aðra óbótamenn, því það má telja þessi brot þeirra til glæpaverka. Allavega ætti að leysa þá frá störfum nú þegar, ef þeir á einhvern hátt koma ennþá nálægt áhrifastörfum í þjóðfélaginu.

Himinbrún mótmælt

Þetta er í eina skiptið á ævinni sem ég hef upplifað næstum því uppreisn á bíósýningu. Mynd sem fjallar um mótmælanda var mótmælt hressilega. Myndin byrjaði vel og við sáum marga góða leikara, t.d. gamli maðurinn, pabbi prófessorsins. Hann var fantagóður. Aðalstjarna myndarinnar Hanna Schygulla lék gömlu konuna, móður vinkonu stúlkunnar sem stóð í mótmælunum. Myndin hélt manni dáldið föstum við atburðarásina til að byrja með, en þetta voru eilífar flækjur. Svo kom að því að myndin fór að óskýrast, önnur hliðin á myndinni fór úr fókus og smátt og smátt varð enski textinn allur í þoku. Fyrst datt manni í hug að leikstjórinn væri að leggja áherslu á tilfinningar fólksins í leiknum, en þegar þetta jókst að mun og maður heyrði bara tal á þýsku og enski textinn í þoku meira og minna og myndin oft úr fókus, þá fór að ljókka ástandið. Fólk hrópaði að það ætti að biðja alla afsökunar á þessu. Sumir stóðu upp og fóru út. Það var mikil ókyrð í salnum. Ég verð að segja það að mér varð hálfillt í höfðinu á því að góna á myndina fara svona úr fókus. Ég hefði aldrei farið að sjá þessa mynd ef ég hefði vitað hvernig hún var. En leikararnir stóðu vel fyrir sínu. Þó var þessi Hanna ekkert betri en hinir aðalleikararnir.

Vatnið heima, ó, Drottinn minn!

Þegar ég las pistil Sigurðar Grétars Guðmundssonar í Mogganum í morgun, ,,Telitað vatn úr kalda krananum" , þá kom strax í huga mér ljóð Nordahls Griegs, VATN í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar. Skáldið var statt á vínkrá í Shanghai og hugsar til vatnsins hreina heima í Noregi.

Vatn sem streymir, vatn sem niðar
vor og haust með sínu lagi.

Geturðu skilið þessa þrá?

Ekki sem hér eystra - þræsið
ýlduskólp, sem mógult flýtur
fram með rek af rottulíkum,
ræsaþef og forardaun.
Eitt sinn er ég féll í freistni
fyrir mínum þorsta, fékk ég
sjúkravist í syndarlaun.

Vatnið hreina, vatnið heima,
vatn sem lagst er hjá og þambað,
- þetta vatn mér veldur þrá.
Kannski er hlý og hæglát rigning.
Hljóðfall dropa úr björk og lyngi
kliðar létt við kaldan strauminn.
Kannski er yfir þoka grá.

Þetta er nú aðeins hluti af ljóðinu, sem í heild verkar svo sterkt á mann að maður kemst í hálfgerða vímu við lestur þess. Þess vegna varð ég hálf hissa eitt sinn þegar ég var staddur út í Noregi í hópi Norðurlandabúa að Norðmennirnir könnuðust varla við Nordahl Grieg. Sumir höfðu aldrei heyrt hann nefndan. Mér datt í hug hvort kratapólitíkin hefði haft þessi áhrif, af því Nordahl var kommúnisti, að hann hefði hreinlega týnst í sínu eigin föðurlandi. En burtséð frá því. Magnús Ásgeirsson á þakkir skyldar fyrir að kynna okkur Íslendingum eitt af bestu skáldum tuttugustu aldarinnar. Kannski bætti Magnús hann upp með sínum frábæru þýðingum.

Það eru ófagrar lýsingar Sigurðar Grétars Guðmundssonar af kalda vatninu í Reykjavík. Mér datt í hug eitt sinn þegar ég skrúfaði frá kalda krananum í íbúð okkar í Fellsmúla upp á 4. hæð. Það hefur líklega verið áður en farið var að bora eftir vatni og vatnið kom beint úr Gvendarbrunnunum, að þá kom dautt síli úr krananum og flaut upp í vaskinum. Þættir Sigurðar í Mogganum eru mjög til fyrirmyndar og oft klippi ég þá út og geymi.


Nýtt stríð í austri

Bandaríkin eru að undirbúa nýtt stríð í Austurlöndum, nú gegn Íran. Frá þessu var sagt í ríkisútvarpinu í fyrrakvöld. Það er meira að segja svo að þau eru tilbúin með hernaðaráætlun. Það á fyrst að varpa sprengjum á kjarnorkuver Írana og síðan á að hefja stanslausar sprengjuárásir á allar helstu borgir þeirra í nokkrar vikur !!! Það virðist ekki vera nóg aðgert í því að drepa fólk. Fyrst Persaflóastríðið, svo Afganistan og þá Írak og enn er barist þar. Bush sagði nýlega að þar yrði staðsettur her um ókomin ár og gerði ráð fyrir langri hersetu. Sagt er að Bandaríkin ætli að tryggja sér olíulyndir á þessum slóðum. Fleiri hundruð þúsunda af óbreyttum borgurum, aðallega konur og börn hafa fallið og sjálfir missa þeir svo og svo marga hermenn á hverjum degi.

Af hverju þegja allir!!! - Það er kominn tími til að þjóðir heims rísi upp á móti þessum heimsvaldasinnum í vestri. Mér finnst að við ættum að skera upp herör gegn Bandaríkjamönnum. Við eigum að hætta að kaupa vörur þaðan. Þegar ég kom í Hagkaup í dag var búið að dreifa bandaríska fánanum um alla búð og auglýstir voru ,,Amerískir dagar". ??? Ég segi stopp! Kaupum ekki amerískar vörur. Við þurfum ekkert á þeim að halda.

Við þurfum heldur ekki neinn her. Burt með Norðmenn og dani. Við þurfum ekki á þeirra her að halda.


Bókaveisla í Kolaportinu

Það var alveg óvenjulega líflegt í Kolaportinu um helgina. Stærsti fornbókasalinn er að hætta og lækkaði verðið niður í 100 - 300 kr. Þeir sem eru í þessum bransa alla daga fóru hamförum og höfðu aldrei komist í jafn feitt. Og ég verð að segja það að þarna mátti sjá margan góðan gripinn sem ekki er oft á glámbekk. Ég náði t.d. í Minningarrit um Ungmennafélög Íslands 1907-1937 í samantekt Geirs Jónassonar á 300 kr. - Gjafverð, fyrir þetta grundvallarrit um merka hreyfingu, sem mér finnst að ætti að vera skyldulesning í framhaldsskólum landsins. Þarna er sagt frá brautryðjendunum sem skópu lýðveldið og stofnuðu ungmennafélögin. Þá var þarna mikið safn ýmissa góðra ljóðabóka sem eru orðnar mjög sjaldgæfar. - Það væri mikill sjónarsviptir að því ef Kolaportið yrði lagt niður á þessum stað sem það er núna. Þetta er eins og mikil og góð félagsmiðstöð, þar sem fólk kemur saman um helgar og spjallar og fær sér kaffibolla eða verslar lítið eitt. Ég held að ráðamenn ættu að líta til þess að hlúa frekar að þessari starfsemi heldur en að leggja hana niður.


Það blæðir úr morgunsárinu

GUÐ

andi minn glímdi við guð
og það var gasalegt puð
þjáningin þakti mitt borð
með þögninni sekri um orð

Jónas E. Svafár

Mér datt í hug þetta ljóð eftir Jónas vin minn þegar ég las um myndlistasýningu hans sem nú stendur yfir í Hoffmannsgallerí Reykjavíkurakademíunnar. Ég kynntist Jónasi um 1950 í Reykjavík. Ég keypti fyrstu bókina hans ,,Það blæðir úr morgunsárinu" af honum sjálfum. Hann seldi hana á götunum. Hann sat inni á veitingahúsum og teiknaði myndir og orti ljóð. Þetta voru miklir umbrotatímar í ljóðagerðinni. Sumum af kunningjum mínum var uppsigað við Jónas og sögðu að hann væri ekkert skáld. Sögðu söguna af því þegar hann datt á hausinn í Rauðhólaskálanum og skáldskapur hans hefði breyst upp frá því. Þetta var náttúrlega ekkert nema öfund. Það mátti ekki fara út af vissri línu í daglegri hegðun og framsetningu í máli og myndum. Nú er Jónas talinn hafa verið frumkvöðull í listinni að mörgu leyti. Ingólfur Örn Arnarsson myndlistarmaður spyr þarna í greininni hvað hafi orðið af myndunum hans Jónasar. Ég man eftir því að Jón Ingólfsson húsamálari, sem nú er látinn, safnaði á tímabili myndum eftir hann, en ég veit ekki hvað varð um þær. Ég á allar bækurnar hans Jónasar með eiginhandaráritunum og þær segja allar eitthvað sem enginn annar hefði getað sagt.


Sicko er enn sýnd

Það virðist vera að kvikmyndin Sicko um ameríska heilbrigðiskerfið hafi aldeilis slegið í gegn. Í Morgunblaðinu í morgun er sagt að hún verði sýnd nokra daga í viðbót. Húrra, húrra. Verið nú snögg, það er ekki oft að góðar myndir eru sýndar hér. Eintómt rusl bæði í bíóunum og í sjónvarpinu. Ég er hissa hvað langlundargeð almennings er mikið gagnvart börnunum þegar verið er að sýna úr byssumyndunum á kvöldin fyrir fréttir. Auðvitað ætti þetta ekki að líðast. Það ætti að banna þessar auglýsingar strax.

Jarðygla - framhald

Það fór illa með Jarðygluna mína. Þegar ég var búinn að finna eina á Blátoppnum, runnategund hér út í garði, fór ég með hana til Alla nágranna míns og setti hana í vatnsglasið sem hann safnar þeim í. Hún var fljót að drukkna og allar yglurnar sem Alli hafði tínt voru löngu dauðar. Þetta er eiginlega synd því þær eru svo fallegar lifandi og þetta verður eitt af því sem ég mun eiga bágt með að gera grein fyrir við stóra hliðið hjá Pjetri. En stundum verður maður að velja. Ég var líka að rækta runna sem ég vildi hafa í lagi, og vildi ekki láta ygluna éta nýgræðinginn. Og svo fór ég að hugsa um fiðrildin fallegu sem fyrir bragðið myndu ekki fæðast. Og hvað með fuglana sem biðu eftir fiðrildunum og ætluðu að hafa þau í matinn handa ungunum sínum. Þetta var orðin ein hringavitleysa. Ég hætti að hugsa svona og herti mig upp, fór bak við húsið og kíkti á Mispilinn sem hefur vaxið vel í sumar í öllu góðviðrinu og viti menn, þarna var ein heljarstór ygla og var hér um bil búin með greinina sem hún skreið á. Ég flýtti mér að ná í sultukrukku, skellti henni ofan í með lítilli blaðgrein svo hún hefði eitthvað að borða og setti svo plast fyrir opið. Hún hélt bara áfram að borða og virtist í fullu fjöri. Um morguninn daginn eftir leit ég upp í hillu á krukkuna og hún var þá tóm. Hún hafði étið sig út úr krukkunni og sást nú hvergi. Mér leist ekkert á og leitaði og leitaði um allt herbergið en varð að gefast upp. Þannig leið dagurinn og aldrei kom yglan í ljós. Jæja, á sunnudaginn er ég að ganga um stofugólfið og mæti þá yglunni sem hlykkjaðist frísklega um gólfið. Ég var fljótur að láta hana aftur í krukkuna og skrúfaði traust lok á hana með götum á. Síðan þetta skeði fyrir nokkrum dögum hefur hún frekar minnkað og skroppið saman og er nú orðin að púpu. Það verður gaman að sjá þegar fiðrildið kemur. Ég veit nákvæmlega hvernig það lítur út. Grátt og loðið að framan og mikilúðlegt. En kannski kemur ekkert fiðrildi. Við skulum sjá.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband