Í minningu Vilhjálms frá Skáholti

Í fyrradag, 30. des. flutti Gunnar Stefánsson þátt um Vilhjálm frá Skáholti á Rás 1 í tilefni þess að öld var liðin frá fæðingu hans. - Fyrsta ljóðabók Vilhjálms kom út 1931 og 4 árum seinna kom út bókin ,,Vort daglega brauð". Hún var síðan endurprentuð ári seinna og 3ja útg.kom út 1950. Aðrar bækur hans voru ,,Sól og menn" 1948, ,,Blóð og vín" 1957 og úrval ljóða hans,,Jarðnesk ljóð" kom síðan út 1959. Helgi Sæmundsson var útgefandi og hann gaf einnig út heildarsafn kvæða Vilhjálms ,,Rósir í mjöll" árið 1992. Á 45 snúninga plötu sem ég á og kom út einhvern tíma eftir miðja öldina síðustu les Vilhjálmur upp sjö ljóð sín og þar er þetta fallega ljóð ,,Tvö veglaus börn". Upplestur hans er alveg meistaraverk og hlusta ég oft á þessa gömlu upptöku og sé þá Vilhjálm fyrir mér í anda þar sem hann gengur niður Laugaveginn og hefur upp hönd sína og raust:

Tvö veglaus börn

Tvö lítil börn í leik í hvítum sandi

með ljóð í svip.

Og tón á vör sem fagur frelsisandi

bjó fegurst grip.

Tvö dreymin hjörtu er drógu burt frá landi

sín draumaskip.

 

Úr hvítum sandi stoltu skipin runnu

og stefndu á leið

til ókunns lands í lyfting börnin unnu

sinn lokaeið.

Að sigra allt og sigla djarft þau kunnu

sinni draumaskeið.

 

Og allt um kring barst söngur sævardísa

um sigra manns,

sem lagði á djúp við dreymna sál en vísa

og dáðir hans,

sem einatt vildi litlum börnum lýsa

leið til sannleikans.

 

Í ljóðsins mynd reis landið eins og alda

af öllu ríkt,

með glitrík blóm og gullið þúsundfalda

í gleði vígt,

sem hugi þeirra hóf til æðstu valda

við hljómsins mýkt.

 

Sjá langt í fjarska þar sem heiðblátt hafið

við himinn bar

og sólir ófu gullið geislatrafið

í gullnum mar.

Þau eygðu land í ljósum gróðri vafið

og lentu þar.

 

Þau stigu á land með von sem vængi breiddi

veröld mót.

En draumsins böðull börnin ungu leiddi

um brunnið grjót

og grafarauðnin gleði hjartans deyddi

svo grimm og ljót.

 

Og það var kvöl í brjóstum ungra barna,

sem brynni á góm.

Eitt vítisbál því yndið allt að tarna

var eintómt hjóm.

Sjá gróðurinn bar engan ávöxt þarna

og engin blóm.

 

Öll fegurð ljóðsins féll í myrkrið svarta,

sem feigðin ól.

Þau héldu á burt með sorg í særðu hjarta

og sál er kól.

Tvö lítil börn sem vildu veröld bjarta

með vori og sól.

 

Og enn má sjá hvar sigla undan landi

tvö sorgmædd börn,

um langsótt haf í leit að hvítum sandi

við litla tjörn.

Tvö vanrækt hjörtu er villtust burt frá landi,

tvö veglaus börn.

 

 

 

 

 

 

 

 


Bílar með biluð ljós

Við höfum verið dálítið á ferðinni að undanförnu, farið nokkrum sinnum til Reykjavíkur og lent í myrkri á heimleið austur fyrir fjall. Það hefur verið áberandi í seinni tíð að maður mætir oft bílum sem eru bara með annað ljósið að framan. Þetta er mjög bagalegt í svartamyrkri og gæti sjálfsagt valdið slysum. Það er eins og maður sé að mæta mótorhjóli en svo eru þetta breiðir bílar. Í gær keyrði þetta um þverbak, við mættum hverjum bílnum á fætur öðrum sem voru ljóslausir öðrum megin. Ég taldi fimm bíla á stuttum tíma.

Nú spyr ég. Af hverju er ekkert eftirlit með þessu lengur? Einu sinni þurftu allir bílar að koma í ljósaskoðun, mig minnir einu sinni á ári, á haustin, og fengu límmiða á rúðuna hjá sér. En það virðist ekki vera lengur og lítið eftirlit af hálfu lögreglu í þessum efnum því hún er svo fáliðuð. Að setja allt sitt traust á einstaklinginn virðist ekki ganga upp þegar kemur að ýmsum öryggismálum í þjóðfélaginu. Þetta er svona á fleiri sviðum. Nóg í bili.


Áin Tana

Árið 2001 kom út ljóðabókin Bjartir frostdagar eftir Rauni Magga Lukkari í þýðingu Einars Braga. Í inngangi segir frá höfundinum. Rauni er fædd árið 1943 í Utsjoki í Finnlandi, yngst 13 systkina og ólst upp í föðurhúsum til fermingaraldurs en fór þá að sjá fyrir sér sjálf. Utsjoki er á austurbakka árinnar Tana sem skiptir þar löndum með Finnlandi og Noregi. Árdalurinn er byggður Sömum báðumegin fljóts og því ærið hlálegt að hann er talinn finnskur öðrumegin, norskur á hina hlið - en hvergi samískur! Samísk börn fengu ekki kennslu í móðurmáli sínu í skólum. Rauni Magga Lukkari lærði ekki að skrifa móðurmál sitt fyrr en hálffertug, en þá var hún við nám í samískum fræðum við Tromsøháskóla.

Fyrsta ljóð hennar á samísku fjallar um bernskuána Tana:

Ég ræ yfir ána mína
á föður míns
á afa míns
ýmist yfrað norska bakka
eða þeim finnska
Ég ræ yfir ána mína
að bakka móður minnar
að bakka föður míns
og spyr: hvar
eiga heimilislaus börn sér hæli


Nýstárleg frétt

Bandaríkjamenn eru loksins að gefast upp í Írak. Vonandi láta Íslendingar aldrei aftur teyma sig í stríð og snúa baki við þessum stríðsherrum.

,,Fulltrúardeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt 50 milljarða dala aukafjárveitingu sem ætlað er að fjármagna stríðrekstur Bandaríkjanna í Írak og Afganistan. Fjárveitingin er hinsvegar háð þeim skilyrðum að George W. Bush Bandaríkjaforseti verði að hefja brottflutning hermanna frá Írak innan 30 daga og stefnt sé að því að bandarískir hermenn hverfi frá Írak í desember á næsta ári.

Í frumvarpinu er einnig lagt blátt bann við pyntingum. Fulltrúardeildin samþykkti aðeins 50 milljarða dala aukafjárveitingu í stað 200 milljarða dala líkt og Bandaríkjastjórn óskaði eftir."

Frétt sem birtist efst á mbl.is í morgun er komin langt aftur fyrir kl. 10, en það er rétt að lesa hana því hún segir margt um ástandið meðal almennings í Bandaríkjunum. Bush lætur sig ekki en almennir borgarar hugsa sitt ráð.


Víðernin í brjósti mínu

Ég hef verið að lesa ljóðabók Samans Áillohas, sem er listamannsnafn. Hann hét réttu nafni Nils-Aslak Valkeapää og fæddist 23. mars 1943. Hann var víðkunnastur samískra nútímaskálda. Finnskur ríkisborgari, móðir hans frá norska hlutanum en faðirinn frá sænska hlutanum af Samalandi. Hann lést í svefni 26. nóv. 2001.

Bók hans var þýdd af Einari Braga vini mínum sem eyddi seinni hluta ævi sinnar í að kynnast Sömunum og þeirra menningu. Einar Bragi uppgötvaði Samana sem sérstaka menningarþjóð um 1975 þegar hann var á ferðalagi við Grænland. Hann hafði bara heyrt talað um Lappana sem lifðu í nyrstu hlutum Noregs, Svíþjóðar og Finnlands með hreindýrahjarðir.

Hann varð svo hrifinn af skáldskap þeirra að hann tók sig til og ferðaðist um nyrstu hluta Skandinavíu og kynntist flestum skáldunum. Alls fór hann 13 ferðir til Samalands. Hann þýddi ljóð um 30 Samaskálda og gaf sjálfur út sjö ljóðasöfn þeirra. Fyrsta ljóðabókin sem hann gaf út hét ,,Hvísla að klettinum" og kom hún út 1981. Það var fyrsta safn samískra bókmennta á annari tungu sem út var gefið í heiminum. Síðasta samíska bókin sem hann þýddi kom út í desember 2003. Það var ljóðasafn 14 ljóðskálda og hét ,,Undir norðurljósum".

Hér er eitt lítið ljóð eftir Nils-Aslak Valkeapää úr bókinni ,,Víðernin í brjósti mér":

Heit
Þú ert heit
Sólin feimin og morgunrjóð
Hún er líka heit
Saltlykt af hafinu
bátur líður frá landi

Morgunn tími hins tæra skyggnis
Morgunhaf
fyrirheit um framtíð


Fuglablogg

SVANIR og ÁLFTIR: Það var einkennilegt að vakna upp við það um kl. 04 í nótt sem leið, að stór svanahópur flaug kvakandi yfir Hveragerði og hélt í austurátt. Hvað var að ske. Það var fyrsti vetrardagur í gær og það var byrjað að snjóa. Það snjóaði síðan í alla nótt og það var kominn um 10 cm jafnfallinn snjór í morgun þegar ég vaknaði aftur. Ég fór ósjálfrátt að hugsa um svanina og hvernig þeim liði í svona flugi á milli staða. Þetta hlýtur að vera mikil áraun fyrir þá og ég skil ekki hvað þeir eru duglegir að reyna að bjarga sér. - Í síðustu viku fór ég til Reykjavíkur og þá sá ég svani á Fóvelluvötnunum í allri þeirri æðislegu rigningu sem þá var. Hver einasti þeirra var með hausinn á kafi í vatninu kolmóruðu eftir rigningarnar að reyna að ná sér í næringu úr álftalaukunum sem vaxa þarna á botni tjarnanna. Vor og haust safnast álftirnar þarna saman og þegar ég sé þær á vorin finnst mér vorið vera komið fyrir alvöru.

ÞRESTIR: Fyrir nokkrum dögum kom frost hér í Hveragerði og það var gaman að sjá þrestina hópast hér að húsinu og tína fræ og annað smálegt hér á blettinum. Þeir voru svo gæfir að það mátti hér um bil ganga að þeim. Ég setti út epli og þeir komu mjög fljótlega og gogguðu í það lengi dags. Síðan hafa þeir ekki sést enda ekki frost nema smávegis um hánóttina.

AUÐNUTITTLINGAR: Hér er þó nokkuð af Auðnutittlingum, en það er vont að sjá þá. Maður þekkir þá helst af hljóðinu sem þeir gefa frá sér. Langt eins og vein. Það er mjög auðvelt að laða þá að sér með matgjöfum. Það fást fræpokar í verslunum eins og t.d. Europris. Og svo má gefa þeim páfagaukafræ. Það finnst þeim gott.

Einkennisfugl Hveragerðis TJALDURINN og fleiri vaðfuglar auk máfanna eru löngu farnir. Spörfuglarnir sem eru staðfuglar hér eru Starri og Hrafn. Þeir eru ekki margir en sjást hér daglega. Starrarnir fara hér um bæinn í hópum bæði sumar og vetur. Fíllinn verpir hér í Hamrinum fremst ofarlega og hann er sjálfsagt löngu farinn. - Fuglar sem hafa sést hér en eru sjaldgæfir eru Örn og Hegri, en meira um það seinna.


Biblían er sem bögglað roð fyrir brjósti mínu

Mér datt í hug þessi vísa sem einn ágætur maður fór með þegar hann hafði hraðlesið Biblíuna:

Biblían er sem bögglað roð fyrir brjósti mínu,
gleypti ég hana alla í einu,
svo að ekki kom að gagni neinu.

Hvað er eiginlega að ske hjá Kirkjufeðrunum? Er það virkilegt að þessi gamla virðulega stofnun ætli nú að verða að steini eins og tröllin í gamla daga. Halldór í Holti er stórmóðgaður ef lögum verður breytt þannig að prestar fái leyfi til að staðfesta samvist samkynhneigðra. Biskup er með málamiðlun um að prestum verði heimilt að staðfesta samvist, en lögð áhersla á að um jafngilda athöfn og hjónaband sé að ræða. Hins vegar verði staðið við hefðbundinn skilning á orðinu hjónaband sem sáttmála fullvaxta karls og konu. Þriðji hópurinn talar um hjónavígslu staðfestrar samvistar. - Halldór í Holti og hinir holtaþórarnir í Skálholti og Reykholti vilja engu breyta og hóta að leggja fram breytingatillögu um að prestar þjóðkirkjunnar yrðu ekki lengur löggiltir hjónavígslumenn. Það er eins og þeir haldi að jörðin sé flöt enn þá og hafi aldrei snúist, hvorki um sjálfa sig eða í kringum sólina.

Biskup varpaði nýlega sprengju út í þjóðfélagið þegar hann sagði að það væri að kasta hjónabandinu út á haug ef samkynhneigðir væru gefnir saman af prestum!!! Hvernig var það, skapaði ekki Guð samkynhneigða menn eins og okkur hina. Er það virkilegt að stofnunin Kirkjan ætli að klofna á svona einföldu máli? Hvernig væri að hafa samband við Guð úr því orðið er hjá Guði og spyrja hann. Ég er viss um að hann er orðinn löngu þreyttur á þessari vitleysu í okkur mönnunum. Það er ekki við samkynhneigða að sakast. Það er fyrst og fremst Guð. Og hvar er fyrirgefningin. Ég var búinn að fyrirgefa biskupi, en nú blossar þetta upp aftur og ég spyr: Getið þið ekki fyrirgefið og lifað saman í sátt og samlyndi.

Ný Biblía var að koma út og biskup færði forsetanum eintak í beinni útsendingu. Mig minnir að sá fyrrnefndi hafi við það tækifæri sagt í fjölmiðlum að þessi texti væri sá besti í heiminum. Er það nú rétt ? Er ekki margt orðið úrelt í þessari gömlu bók. Sköpunarsagan er náttúrlega algert rugl. Maður er undrandi á því að til séu menn í dag sem trúa því að konan hafi verið sköpuð úr rifi mannsins sem áður hafði verið skapaður úr leir. Og það er með ólíkindum hvernig farið er með konurnar í þessari helgu bók. Guð skapaði þær af því að hann sá að manninn vantaði meðhjálp eins og stendur í Mósebók. Páll postuli sagði að þær ættu að vera manninum undirgefnar. Og í Korintubréfi er talað um kynlífið sem saurlifnað. Jæja, er það nú svo. Ég er ansi hræddur um, að það væri ekkert mannkyn til í dag ef farið hefði verið eftir því sem stendur í Biblíunni.

En boðskapur Krists er góður og boðorðin tíu er gott að hafa hjá sér í horninu á þessum síðustu og verstu tímum.


Ungmennafélag Íslands 100 ára

Helga Guðrún Guðjónsdóttir var einróma kjörin formaður Ungmennafélags Íslands á þingi þess sem lauk á Þingvöllum í dag. Það er í fyrsta skipti sem kona er kjörin formaður sambandsins í 100 ára sögu þess .

Það er ekki úr vegi í tilefni 100 ára afmælisins að birta kvæði föður míns sem er á heimasíðu UMFÍ - Þrastarlundur. - Ungmennasambandið er stofnað 2. ágúst 1907, en í morgun hófst sambandsþing þess á Þingvöllum.

Kvæðið heitir Í Þrastarskógi og er í bókinni Álftirnar kvaka sem kom út 1929 á fæðingarári mínu. Einhver sagði að starf UMFÍ snerist nú bara um íþróttir og peninga frá Lottó. Ég vona að svo sé ekki. Hins vegar hef ég séð það að bláhvíti fáninn blaktir ekki lengur við hún í Þrastarlundi þegar maður keyrir þar fram hjá. Það er kannski tímanna tákn. Nú er sá bláhvíti hvergi sjáanlegur nema fyrir ofan dyrnar á Menntaskólanum á Laugarvatni vegna þess að hann er ennþá í merki skólans. Ég legg til að sambandsþing samþykki að hefja fánann aftur til vegs.

Býður ró um bjarkargöng
blómum gróin prýði. -
Þú átt nóg af þýðum söng
Þrastaskógur fríði.

Langt frá iðu lagar-sands
leita ég friðar glaður. -
Æsku-liði Ísalands
ertu griðarstaður.

Hljóðnar glaumur borgar-brags,
bönd og taumar slakna.-
Hefjast straumar helgidags,
-heiðir draumar vakna.

Skógasálin hlýja hlær,
huldumálin stirllir,
geisla-báli í brjóstin slær,
blóma-skálar fyllir.

Rætur haggast. - Reynir hátt,
rís við daggarfalli.
Svönum vaggar vatnið blátt.
Vorið flaggar gulli.

Skógarsálin hlýja hlær,
huldumálin stillir,
geisla-báli í brjóstin slær,
blóma-skálar fyllir.

Rætur haggast. - Reynir hátt
rís við daggarfulli.
Svönum vaggar vatnið blátt.
Vorið flaggar gulli.

Flögra mæður grein af grein. -
Greikka bræður sporið.
- Staka fæðist ein og ein,
eða kvæði um vorið.

Hugi friðar skógar-skart,
- skjálfa viðir grænir.
Út um hliðið óskabjart,
æsku-liðið mænir.

Þungar rastir sækja'um Sog,
- sveinar hasta á niðinn,
taka fast í árar - og
undir þrastakliðinn.

Fylla barminn fögur heit,
fjör í armi kvikar. -
Leikur bjarmi um sækna sveit,
- sól á hvarmi blikar.

Alt vill gróa - Æsku-björk
öðlast ró og stækkar.
Enn mun þróast þjóðar-mörk,
- þessi skógur hækkar.


Leit að brjóstakrabbameini

Krabbameinsfélag Íslands er góð og þörf stofnun sem hefur bjargað lífi margra, bæði kvenna og karla. Ég bara minnist þess þegar ég fór á námskeið þar, í að hætta að reykja, fyrir um 20 árum og það bar árangur. Ég snarhætti og hef ekki byrjað að reykja aftur og þakka enn og aftur fyrir að hafa notið aðstoðar þessa góða félags til þess.

Í október á hverju ári er vakin athygli á brjóstakrabbameini segir í frétt í blöðunum í dag. Það sem ég hef oft undrast í sambandi við þetta mál er að þegar leitarstöð Krabbameinsfélagsins býður konum upp á röntgenmyndatöku, að þá er bara hluta kvenna sent bréf. Konur sem komnar eru yfir vissan aldur fá ekki bréf, en sagt er að þær séu velkomnar til stöðvarinnar. Nú er það svo að það það þarf oft að minna konur á að passa heilsu sína. Sérstaklega þegar þær eru komnar á aldur. Þær vilja gleyma þessu sjálfsagða atriði. Ég veit þetta af því góð skólasystir mín dó um aldur fram úr brjóstakrabbameini, af því hún gleymdi að fara í skoðun eftir að hætt var að boða hana vegna aldurs. Hún hefði í dag verið svona tæplega áttræð ef hún hefði lifað.

Nú spyr ég. Af hverju eru ekki allar konur boðaðar í skoðun hjá leitarstöðinni ? Og hvers eiga eldri konur að gjalda að það er ekki gert? Krabbameinsfélagið nýtur mikilla styrkja héðan og þaðan til sinnar starfsemi og ég býst við að þeir sem styrkja það ætlist til þess að það sé ekki þessi mismunun í gangi. Er ekki verið að brjóta mannréttindi á gömlum konum með þessu háttalagi?

Það væri gaman að fá svar við þessu frá Krabbameinsfélaginu eða frá Mannréttindanefnd Reykjavíkur, því stór hluti kvenna landsins er jú þar.


Óbeisluð orka

Ég tek undir með Björk Vilhelmsdóttur í Morgunblaðinu í morgun. Fyrir utan mál OR þarf líka að ræða þau mál sem snúa að smærri einingum samfélagsins svo sem húsnæðismálum og málefnum gamla fólksins. ,,Við erum til hvert fyrir annað og hver og einn skiptir máli". Björk er nú orðin formaður Velferðarráðs Reykjavíkur og býður til samstarfs. Húsnæðismálin eru henni ofarlega í huga. Það er vel. Ég sé ekki hvernig lágtekjufólk, skólanemendur og aðrir, eiga að fara að því að ná endum saman með hátt í 100.000 kr. í leigu á mánuði ! Mig minnir að Jóhanna Sigurðardóttir hafi líka ætlað að taka á þessu máli. Ég er viss um að samfylkingarkonurnar geta gert marga góða hluti saman. Ég vil sérstaklega benda þeim stöllum á viðtal við konu sem var í útvarpi Sögu í morgun hjá Arnþrúði Sigurðardóttur. Ég man ekki hvað hún heitir, en hún talaði um hvað hvað gamla fólkið fengi lélegt fæði á dvalarheimilunum. Þetta er sjálfsagt misjafnt, en mér fyndist að borgarstjóri, sem er að kynna sér umönnunarmál borgarinnar í dag , Björk og Jóhanna ættu öll saman, að láta gera könnun á ástandinu. Það er ekki viðunandi að fólk sé hálfsvelt á öldrunarstofnunum Reykjavíkurborgar.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband