Fuglablogg

SVANIR og ÁLFTIR: Það var einkennilegt að vakna upp við það um kl. 04 í nótt sem leið, að stór svanahópur flaug kvakandi yfir Hveragerði og hélt í austurátt. Hvað var að ske. Það var fyrsti vetrardagur í gær og það var byrjað að snjóa. Það snjóaði síðan í alla nótt og það var kominn um 10 cm jafnfallinn snjór í morgun þegar ég vaknaði aftur. Ég fór ósjálfrátt að hugsa um svanina og hvernig þeim liði í svona flugi á milli staða. Þetta hlýtur að vera mikil áraun fyrir þá og ég skil ekki hvað þeir eru duglegir að reyna að bjarga sér. - Í síðustu viku fór ég til Reykjavíkur og þá sá ég svani á Fóvelluvötnunum í allri þeirri æðislegu rigningu sem þá var. Hver einasti þeirra var með hausinn á kafi í vatninu kolmóruðu eftir rigningarnar að reyna að ná sér í næringu úr álftalaukunum sem vaxa þarna á botni tjarnanna. Vor og haust safnast álftirnar þarna saman og þegar ég sé þær á vorin finnst mér vorið vera komið fyrir alvöru.

ÞRESTIR: Fyrir nokkrum dögum kom frost hér í Hveragerði og það var gaman að sjá þrestina hópast hér að húsinu og tína fræ og annað smálegt hér á blettinum. Þeir voru svo gæfir að það mátti hér um bil ganga að þeim. Ég setti út epli og þeir komu mjög fljótlega og gogguðu í það lengi dags. Síðan hafa þeir ekki sést enda ekki frost nema smávegis um hánóttina.

AUÐNUTITTLINGAR: Hér er þó nokkuð af Auðnutittlingum, en það er vont að sjá þá. Maður þekkir þá helst af hljóðinu sem þeir gefa frá sér. Langt eins og vein. Það er mjög auðvelt að laða þá að sér með matgjöfum. Það fást fræpokar í verslunum eins og t.d. Europris. Og svo má gefa þeim páfagaukafræ. Það finnst þeim gott.

Einkennisfugl Hveragerðis TJALDURINN og fleiri vaðfuglar auk máfanna eru löngu farnir. Spörfuglarnir sem eru staðfuglar hér eru Starri og Hrafn. Þeir eru ekki margir en sjást hér daglega. Starrarnir fara hér um bæinn í hópum bæði sumar og vetur. Fíllinn verpir hér í Hamrinum fremst ofarlega og hann er sjálfsagt löngu farinn. - Fuglar sem hafa sést hér en eru sjaldgæfir eru Örn og Hegri, en meira um það seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það sást hér gráhegri um daginn fyrir vestan á Þingeyri minnir mig.  Annars er gaman að spá í fuglana.  Svanir dvelja stundum hér yfir veturinn. Hrafninn er eiginlega kennileyti á Ísafirði.  Sem minnir mig á að það þarf að fara að gefa honum eitthvað í gogginn, þegar herðir veturinn.  Ég er hrifinn af krumma.  Hann segir til um veður.  Þegar hann klúkkar á sinn sérkennilega hátt, þá er hann að boða rigningu.  Hann hefur líka varað við snjóflóðum.  Og ég heyrði sögu af honum frá Hnífsdal, þar sem voru tveir bændur hlið við hlið.  Annar alltaf með byssuna á lofti, hinn ekki.  Hrafninn drap lömb frá bóndanum með byssuna, en lét lömb hins alveg í friði.  Hvernig hann fór að því að þekkja þau sundur, veit ég ekki.  Ég spurði son annars bóndans um sannleiksgildi sögunnar og hann staðfesti hana við mig.  Þetta var Páll Pálsson skipstjóri, sem togarinn heitir eftir, hinn bóndinin var Vernharður Jósefsson.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.10.2007 kl. 22:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband