Víðernin í brjósti mínu

Ég hef verið að lesa ljóðabók Samans Áillohas, sem er listamannsnafn. Hann hét réttu nafni Nils-Aslak Valkeapää og fæddist 23. mars 1943. Hann var víðkunnastur samískra nútímaskálda. Finnskur ríkisborgari, móðir hans frá norska hlutanum en faðirinn frá sænska hlutanum af Samalandi. Hann lést í svefni 26. nóv. 2001.

Bók hans var þýdd af Einari Braga vini mínum sem eyddi seinni hluta ævi sinnar í að kynnast Sömunum og þeirra menningu. Einar Bragi uppgötvaði Samana sem sérstaka menningarþjóð um 1975 þegar hann var á ferðalagi við Grænland. Hann hafði bara heyrt talað um Lappana sem lifðu í nyrstu hlutum Noregs, Svíþjóðar og Finnlands með hreindýrahjarðir.

Hann varð svo hrifinn af skáldskap þeirra að hann tók sig til og ferðaðist um nyrstu hluta Skandinavíu og kynntist flestum skáldunum. Alls fór hann 13 ferðir til Samalands. Hann þýddi ljóð um 30 Samaskálda og gaf sjálfur út sjö ljóðasöfn þeirra. Fyrsta ljóðabókin sem hann gaf út hét ,,Hvísla að klettinum" og kom hún út 1981. Það var fyrsta safn samískra bókmennta á annari tungu sem út var gefið í heiminum. Síðasta samíska bókin sem hann þýddi kom út í desember 2003. Það var ljóðasafn 14 ljóðskálda og hét ,,Undir norðurljósum".

Hér er eitt lítið ljóð eftir Nils-Aslak Valkeapää úr bókinni ,,Víðernin í brjósti mér":

Heit
Þú ert heit
Sólin feimin og morgunrjóð
Hún er líka heit
Saltlykt af hafinu
bátur líður frá landi

Morgunn tími hins tæra skyggnis
Morgunhaf
fyrirheit um framtíð


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Þorleifsson

"My heart is in the highlands" heyrist í söng Bob Dylans.  Fleiri ljóð með þessari setningu innanborðs.

Pétur Þorleifsson , 4.11.2007 kl. 18:29

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Fallegt ljóð. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.11.2007 kl. 20:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband