Færsluflokkur: Ljóð
24.12.2008 | 10:49
Landið helga (brot)
Þótt allir knerrir berist fram á bárum
til brots við eina og sömu klettaströnd,
ein minning fylgir mér frá yngstu árum,
- þar er sem bliki á höfn við friðuð lönd.
Ég man. Ein bæn var lesin lágt í tárum
við ljós, sem blakti gegnum vetrarhúmið.
Og svo var strokið lokki af léttri hönd,
sem litla kertið slökkti og signdi rúmið.
Einar Benediktsson.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.11.2007 | 09:34
Áin Tana
Árið 2001 kom út ljóðabókin Bjartir frostdagar eftir Rauni Magga Lukkari í þýðingu Einars Braga. Í inngangi segir frá höfundinum. Rauni er fædd árið 1943 í Utsjoki í Finnlandi, yngst 13 systkina og ólst upp í föðurhúsum til fermingaraldurs en fór þá að sjá fyrir sér sjálf. Utsjoki er á austurbakka árinnar Tana sem skiptir þar löndum með Finnlandi og Noregi. Árdalurinn er byggður Sömum báðumegin fljóts og því ærið hlálegt að hann er talinn finnskur öðrumegin, norskur á hina hlið - en hvergi samískur! Samísk börn fengu ekki kennslu í móðurmáli sínu í skólum. Rauni Magga Lukkari lærði ekki að skrifa móðurmál sitt fyrr en hálffertug, en þá var hún við nám í samískum fræðum við Tromsøháskóla.
Fyrsta ljóð hennar á samísku fjallar um bernskuána Tana:
Ég ræ yfir ána mína
á föður míns
á afa míns
ýmist yfrað norska bakka
eða þeim finnska
Ég ræ yfir ána mína
að bakka móður minnar
að bakka föður míns
og spyr: hvar
eiga heimilislaus börn sér hæli
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2007 | 18:07
Víðernin í brjósti mínu
Ég hef verið að lesa ljóðabók Samans Áillohas, sem er listamannsnafn. Hann hét réttu nafni Nils-Aslak Valkeapää og fæddist 23. mars 1943. Hann var víðkunnastur samískra nútímaskálda. Finnskur ríkisborgari, móðir hans frá norska hlutanum en faðirinn frá sænska hlutanum af Samalandi. Hann lést í svefni 26. nóv. 2001.
Bók hans var þýdd af Einari Braga vini mínum sem eyddi seinni hluta ævi sinnar í að kynnast Sömunum og þeirra menningu. Einar Bragi uppgötvaði Samana sem sérstaka menningarþjóð um 1975 þegar hann var á ferðalagi við Grænland. Hann hafði bara heyrt talað um Lappana sem lifðu í nyrstu hlutum Noregs, Svíþjóðar og Finnlands með hreindýrahjarðir.
Hann varð svo hrifinn af skáldskap þeirra að hann tók sig til og ferðaðist um nyrstu hluta Skandinavíu og kynntist flestum skáldunum. Alls fór hann 13 ferðir til Samalands. Hann þýddi ljóð um 30 Samaskálda og gaf sjálfur út sjö ljóðasöfn þeirra. Fyrsta ljóðabókin sem hann gaf út hét ,,Hvísla að klettinum" og kom hún út 1981. Það var fyrsta safn samískra bókmennta á annari tungu sem út var gefið í heiminum. Síðasta samíska bókin sem hann þýddi kom út í desember 2003. Það var ljóðasafn 14 ljóðskálda og hét ,,Undir norðurljósum".
Hér er eitt lítið ljóð eftir Nils-Aslak Valkeapää úr bókinni ,,Víðernin í brjósti mér":
Heit
Þú ert heit
Sólin feimin og morgunrjóð
Hún er líka heit
Saltlykt af hafinu
bátur líður frá landi
Morgunn tími hins tæra skyggnis
Morgunhaf
fyrirheit um framtíð
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.10.2007 | 11:15
Vatnið heima, ó, Drottinn minn!
Þegar ég las pistil Sigurðar Grétars Guðmundssonar í Mogganum í morgun, ,,Telitað vatn úr kalda krananum" , þá kom strax í huga mér ljóð Nordahls Griegs, VATN í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar. Skáldið var statt á vínkrá í Shanghai og hugsar til vatnsins hreina heima í Noregi.
Vatn sem streymir, vatn sem niðar
vor og haust með sínu lagi.
Geturðu skilið þessa þrá?
Ekki sem hér eystra - þræsið
ýlduskólp, sem mógult flýtur
fram með rek af rottulíkum,
ræsaþef og forardaun.
Eitt sinn er ég féll í freistni
fyrir mínum þorsta, fékk ég
sjúkravist í syndarlaun.
Vatnið hreina, vatnið heima,
vatn sem lagst er hjá og þambað,
- þetta vatn mér veldur þrá.
Kannski er hlý og hæglát rigning.
Hljóðfall dropa úr björk og lyngi
kliðar létt við kaldan strauminn.
Kannski er yfir þoka grá.
Þetta er nú aðeins hluti af ljóðinu, sem í heild verkar svo sterkt á mann að maður kemst í hálfgerða vímu við lestur þess. Þess vegna varð ég hálf hissa eitt sinn þegar ég var staddur út í Noregi í hópi Norðurlandabúa að Norðmennirnir könnuðust varla við Nordahl Grieg. Sumir höfðu aldrei heyrt hann nefndan. Mér datt í hug hvort kratapólitíkin hefði haft þessi áhrif, af því Nordahl var kommúnisti, að hann hefði hreinlega týnst í sínu eigin föðurlandi. En burtséð frá því. Magnús Ásgeirsson á þakkir skyldar fyrir að kynna okkur Íslendingum eitt af bestu skáldum tuttugustu aldarinnar. Kannski bætti Magnús hann upp með sínum frábæru þýðingum.
Það eru ófagrar lýsingar Sigurðar Grétars Guðmundssonar af kalda vatninu í Reykjavík. Mér datt í hug eitt sinn þegar ég skrúfaði frá kalda krananum í íbúð okkar í Fellsmúla upp á 4. hæð. Það hefur líklega verið áður en farið var að bora eftir vatni og vatnið kom beint úr Gvendarbrunnunum, að þá kom dautt síli úr krananum og flaut upp í vaskinum. Þættir Sigurðar í Mogganum eru mjög til fyrirmyndar og oft klippi ég þá út og geymi.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2007 | 11:19
Það blæðir úr morgunsárinu
GUÐ
andi minn glímdi við guð
og það var gasalegt puð
þjáningin þakti mitt borð
með þögninni sekri um orð
Jónas E. Svafár
Mér datt í hug þetta ljóð eftir Jónas vin minn þegar ég las um myndlistasýningu hans sem nú stendur yfir í Hoffmannsgallerí Reykjavíkurakademíunnar. Ég kynntist Jónasi um 1950 í Reykjavík. Ég keypti fyrstu bókina hans ,,Það blæðir úr morgunsárinu" af honum sjálfum. Hann seldi hana á götunum. Hann sat inni á veitingahúsum og teiknaði myndir og orti ljóð. Þetta voru miklir umbrotatímar í ljóðagerðinni. Sumum af kunningjum mínum var uppsigað við Jónas og sögðu að hann væri ekkert skáld. Sögðu söguna af því þegar hann datt á hausinn í Rauðhólaskálanum og skáldskapur hans hefði breyst upp frá því. Þetta var náttúrlega ekkert nema öfund. Það mátti ekki fara út af vissri línu í daglegri hegðun og framsetningu í máli og myndum. Nú er Jónas talinn hafa verið frumkvöðull í listinni að mörgu leyti. Ingólfur Örn Arnarsson myndlistarmaður spyr þarna í greininni hvað hafi orðið af myndunum hans Jónasar. Ég man eftir því að Jón Ingólfsson húsamálari, sem nú er látinn, safnaði á tímabili myndum eftir hann, en ég veit ekki hvað varð um þær. Ég á allar bækurnar hans Jónasar með eiginhandaráritunum og þær segja allar eitthvað sem enginn annar hefði getað sagt.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)