Vatnið heima, ó, Drottinn minn!

Þegar ég las pistil Sigurðar Grétars Guðmundssonar í Mogganum í morgun, ,,Telitað vatn úr kalda krananum" , þá kom strax í huga mér ljóð Nordahls Griegs, VATN í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar. Skáldið var statt á vínkrá í Shanghai og hugsar til vatnsins hreina heima í Noregi.

Vatn sem streymir, vatn sem niðar
vor og haust með sínu lagi.

Geturðu skilið þessa þrá?

Ekki sem hér eystra - þræsið
ýlduskólp, sem mógult flýtur
fram með rek af rottulíkum,
ræsaþef og forardaun.
Eitt sinn er ég féll í freistni
fyrir mínum þorsta, fékk ég
sjúkravist í syndarlaun.

Vatnið hreina, vatnið heima,
vatn sem lagst er hjá og þambað,
- þetta vatn mér veldur þrá.
Kannski er hlý og hæglát rigning.
Hljóðfall dropa úr björk og lyngi
kliðar létt við kaldan strauminn.
Kannski er yfir þoka grá.

Þetta er nú aðeins hluti af ljóðinu, sem í heild verkar svo sterkt á mann að maður kemst í hálfgerða vímu við lestur þess. Þess vegna varð ég hálf hissa eitt sinn þegar ég var staddur út í Noregi í hópi Norðurlandabúa að Norðmennirnir könnuðust varla við Nordahl Grieg. Sumir höfðu aldrei heyrt hann nefndan. Mér datt í hug hvort kratapólitíkin hefði haft þessi áhrif, af því Nordahl var kommúnisti, að hann hefði hreinlega týnst í sínu eigin föðurlandi. En burtséð frá því. Magnús Ásgeirsson á þakkir skyldar fyrir að kynna okkur Íslendingum eitt af bestu skáldum tuttugustu aldarinnar. Kannski bætti Magnús hann upp með sínum frábæru þýðingum.

Það eru ófagrar lýsingar Sigurðar Grétars Guðmundssonar af kalda vatninu í Reykjavík. Mér datt í hug eitt sinn þegar ég skrúfaði frá kalda krananum í íbúð okkar í Fellsmúla upp á 4. hæð. Það hefur líklega verið áður en farið var að bora eftir vatni og vatnið kom beint úr Gvendarbrunnunum, að þá kom dautt síli úr krananum og flaut upp í vaskinum. Þættir Sigurðar í Mogganum eru mjög til fyrirmyndar og oft klippi ég þá út og geymi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband