Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Arnarstofninn í sókn

Það var gleðilegt að heyra að arnarstofninn er að rétta við. Hér á Suðurlandi verptu arnarhjón á fyrri hluta aldarinnar sem leið. Hreiður þeirra var í Núpafjalli í Ölfusi, rétt fyrir ofan gamla bæinn. Ég sá þá oft hnita hringa í loftinu mjög hátt uppi yfir Hveragerði og einu sinni var ég staddur upp við Hamarinn og þá kom örn og settist í bjargið ekki langt frá mér. Í síðasta sinn sem þeir verptu og komu upp unga þá datt hann úr hreiðrinu og Núpamenn náðu honum og ólu hann í nokkurn tíma í auðu fjárhúsi. Síðan var hann til sýnis í gamla barnaskólanum upp í Hveragerði. Finnur Guðmundsson fuglafræðingur kom og merkti hann. Síðan var honum sleppt. Þetta skeði um 1940 og ég býst við að hernaðarumsvifin í Kaldaðarnesi á þessum árum hafi hafi átt sinn þátt í að ernir hurfu af Suðurlandi. En nú eru þeir komnir aftur og það væri gaman að heyra um það ef einhver sést á þessum slóðum.

Nýr hver á gamla hverasvæðinu í Hveragerði

Þessi hver byrjaði að láta öllum illum látum fyrir skemmstu og er búinn að brjóta töluvert af kísilhellunni í kringum sig. Hverinn er staðsettur rétt fyrir vestan Bakkahver og heitir ekki Manndrápshver eins og stendur á heimasíðu Hveragerðisbæjar. Þetta er nýr hver.

Hverinn sem maðurinn gekk í fyrir mörgum árum heitir Bláhver. Þá var lögð götulýsing frá þjóðveginum inn í mitt þorp. Á melnum á milli Bláhvers og Bakkahvers voru brauðin bökuð í gamla daga. Heimild mín um þetta slys í Bláhver er komin frá Aðalsteini Steindórssyni, Lækjarbrún 3 í Hveragerði, en hann ólst upp á þessu svæði frá 9 ára aldri. Hann sá um að baka brauð fyrir móður sína og ýmsa í sveitinni og svo vann hann seinna við jarðborinn sem fyrstur boraði eftir heitu vatni í Hveragerði.

 


Prentminjasafn á Hólum

Nú er verið að grafa upp gömlu prentsmiðjuna á Hólum í Hjaltadal, sem Guðbrandur Þorláksson biskup kom á fót á 16.öld. Það var nokkurn veginn vitað hvar hún var, en ekki með vissu. Í túninu var örnefnið „Prentsmiðjuhóllinn" og þar var grafið og þar fannst prentsmiðjan.

Mikið af minjum hefur fundist og má sjá ýmislegt af því nú þegar á Þjóðminjasafninu í Reykjavík. Við erum heppin og rík Íslendingar að þetta hefur komið í dagsljósið. Þarna eigum við miklar gersemar sem við þurfum að varðveita á veglegan hátt.

Nú liggur beinast við að koma upp prentminjasafni á þessum merka sögustað. Það er reyndar byrjað að undirbúa það. Hólanefnd hefur ákveðið að koma á fót fyrsta prentminjasafni landsins. Nú þurfa allir bókagerðarmenn að leggjast á eitt og styðja við þessa ákvörðun nefndarinnar.

Árið 1940 á nafndegi Jóhanns Gutenbergs 24. júní fóru prentarar og aðrir bókagerðarmenn í merka för norður að Hólum og færðu Hóladómkirkju Guðbrandsbiblíu að gjöf. Það sýndi hvað stéttin mat mikils þennan stað og verk Guðbrands. Nú þurfum við að bæta um betur og koma þar upp veglegu prentminjasafni.

 


Fuglablogg

SVANIR og ÁLFTIR: Það var einkennilegt að vakna upp við það um kl. 04 í nótt sem leið, að stór svanahópur flaug kvakandi yfir Hveragerði og hélt í austurátt. Hvað var að ske. Það var fyrsti vetrardagur í gær og það var byrjað að snjóa. Það snjóaði síðan í alla nótt og það var kominn um 10 cm jafnfallinn snjór í morgun þegar ég vaknaði aftur. Ég fór ósjálfrátt að hugsa um svanina og hvernig þeim liði í svona flugi á milli staða. Þetta hlýtur að vera mikil áraun fyrir þá og ég skil ekki hvað þeir eru duglegir að reyna að bjarga sér. - Í síðustu viku fór ég til Reykjavíkur og þá sá ég svani á Fóvelluvötnunum í allri þeirri æðislegu rigningu sem þá var. Hver einasti þeirra var með hausinn á kafi í vatninu kolmóruðu eftir rigningarnar að reyna að ná sér í næringu úr álftalaukunum sem vaxa þarna á botni tjarnanna. Vor og haust safnast álftirnar þarna saman og þegar ég sé þær á vorin finnst mér vorið vera komið fyrir alvöru.

ÞRESTIR: Fyrir nokkrum dögum kom frost hér í Hveragerði og það var gaman að sjá þrestina hópast hér að húsinu og tína fræ og annað smálegt hér á blettinum. Þeir voru svo gæfir að það mátti hér um bil ganga að þeim. Ég setti út epli og þeir komu mjög fljótlega og gogguðu í það lengi dags. Síðan hafa þeir ekki sést enda ekki frost nema smávegis um hánóttina.

AUÐNUTITTLINGAR: Hér er þó nokkuð af Auðnutittlingum, en það er vont að sjá þá. Maður þekkir þá helst af hljóðinu sem þeir gefa frá sér. Langt eins og vein. Það er mjög auðvelt að laða þá að sér með matgjöfum. Það fást fræpokar í verslunum eins og t.d. Europris. Og svo má gefa þeim páfagaukafræ. Það finnst þeim gott.

Einkennisfugl Hveragerðis TJALDURINN og fleiri vaðfuglar auk máfanna eru löngu farnir. Spörfuglarnir sem eru staðfuglar hér eru Starri og Hrafn. Þeir eru ekki margir en sjást hér daglega. Starrarnir fara hér um bæinn í hópum bæði sumar og vetur. Fíllinn verpir hér í Hamrinum fremst ofarlega og hann er sjálfsagt löngu farinn. - Fuglar sem hafa sést hér en eru sjaldgæfir eru Örn og Hegri, en meira um það seinna.


Jarðygla - framhald

Það fór illa með Jarðygluna mína. Þegar ég var búinn að finna eina á Blátoppnum, runnategund hér út í garði, fór ég með hana til Alla nágranna míns og setti hana í vatnsglasið sem hann safnar þeim í. Hún var fljót að drukkna og allar yglurnar sem Alli hafði tínt voru löngu dauðar. Þetta er eiginlega synd því þær eru svo fallegar lifandi og þetta verður eitt af því sem ég mun eiga bágt með að gera grein fyrir við stóra hliðið hjá Pjetri. En stundum verður maður að velja. Ég var líka að rækta runna sem ég vildi hafa í lagi, og vildi ekki láta ygluna éta nýgræðinginn. Og svo fór ég að hugsa um fiðrildin fallegu sem fyrir bragðið myndu ekki fæðast. Og hvað með fuglana sem biðu eftir fiðrildunum og ætluðu að hafa þau í matinn handa ungunum sínum. Þetta var orðin ein hringavitleysa. Ég hætti að hugsa svona og herti mig upp, fór bak við húsið og kíkti á Mispilinn sem hefur vaxið vel í sumar í öllu góðviðrinu og viti menn, þarna var ein heljarstór ygla og var hér um bil búin með greinina sem hún skreið á. Ég flýtti mér að ná í sultukrukku, skellti henni ofan í með lítilli blaðgrein svo hún hefði eitthvað að borða og setti svo plast fyrir opið. Hún hélt bara áfram að borða og virtist í fullu fjöri. Um morguninn daginn eftir leit ég upp í hillu á krukkuna og hún var þá tóm. Hún hafði étið sig út úr krukkunni og sást nú hvergi. Mér leist ekkert á og leitaði og leitaði um allt herbergið en varð að gefast upp. Þannig leið dagurinn og aldrei kom yglan í ljós. Jæja, á sunnudaginn er ég að ganga um stofugólfið og mæti þá yglunni sem hlykkjaðist frísklega um gólfið. Ég var fljótur að láta hana aftur í krukkuna og skrúfaði traust lok á hana með götum á. Síðan þetta skeði fyrir nokkrum dögum hefur hún frekar minnkað og skroppið saman og er nú orðin að púpu. Það verður gaman að sjá þegar fiðrildið kemur. Ég veit nákvæmlega hvernig það lítur út. Grátt og loðið að framan og mikilúðlegt. En kannski kemur ekkert fiðrildi. Við skulum sjá.

Jarðygla

Það var sýnd hryllingsmynd í sjónvarpinu nýlega um nýjan vágest í Hekluskógum. Það voru myndir af lirfunni Jarðyglu. (Ertuyglu?) Hún er með fallegastu lirfum sem ég hef séð lengi, ljós-langrákótt og mosagræn . En þegar maður sér svona mikið af henni eins og sýnt var frá Hekluskógum þá hryllir mann svoldið við henni. Þessi vágestur ræðst á Lúpínuna og bókstaflega fer um landið eins og eldur í sinu. Hún étur blöðin svo þau verða eins og gatasigti. Þegar ég var austur í Laugardal um helgina, nánar tiltekið í bústöðum bókagerðarmanna, sá ég þar nokkrar lirfur, sem lögðust á víði, lerki og lúpínu. En þar er hún í svo litlum mæli að það er ekki hægt að segja að hún sé plága heldur viðbót við fjölbreytta náttúru. Þegar ég kom svo heim í Lækjarbrún í Hveragerði eftir helgina þá mátti greina þar nokkrar lirfur sem virðast kunna vel við sig á runna sem heitir Blátoppur, en hún leggst ekki á Hansarósina sem er við hliðina. Nú vantar mig og fleiri hér í Lækjarbrúninni upplýsingar um hvort eitthvað er hægt að gera til þess að hafa hemil á þessu skaðræðisdýri, sem kannski gæti orðið að plágu eins og í Hekluskógum.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband