Lífeyrissjóðamál

Laun stjórnarmanna lífeyrissjóðanna voru til umræðu í gær í Morgunblaðinu og þar kemur fram að í lífeyrissjóðnum mínum, Sameinaða lífeyrissjóðnum, að þar eiga stjórnarmenn að taka sjálfir ákvörðun um hvort þeir vilji lækka í launum núna strax. Svo er það ákvörðun ársfundar að ákveða endanleg laun þeirra. Ársfundur er nú væntanlega ekki fyrr en næsta vor. Síðan segir formaður stjórnar hvað hann hafi í laun, 1 og 1/2 miljón á mánuði skilst mér, en inni í þeirri tölu eru líka laun fyrir að vera í stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða. Mér finnst þetta nú vera heldur há laun fyrir ekki meira starf. Sextán sinnum meira en það sem ég fæ í eftirlaun í dag. Hann gæti alveg lækkað sig niðrí 940.000 kr. á mánuði og þætti mörgum það ansi rífleg laun. Það er áberandi núna í fjármálakreppunni hvað menn eru áfjáðir í að lækka launin sín. Það er eins og þeir sjái það núna fyrst að þau hafi kannski verið heldur há. - Á almennum fundi sem haldinn var nýlega í Sameinaða lífeyrissjóðnum var talað um það, að það þyrfti kannski að lækka eftirlaunin okkar þessara eldri sjóðfélaga, af því að það standi í lögum. Orðrétt af heimasíðu sjóðsins: ,,of snemmt er að kveða upp úr um hvort grípa þurfi til lækkunar lífeyris og réttinda um næstu áramót en lögum samkvæmt ber lífeyrissjóðum að grípa til ráðstafana ef munur á eignum og skuldbindingum er meiri en 10%." Í lok október var þessi munur um 11,3%.

Nú vil ég segja það, að ef það er eitthvert lagaákvæði sem segir að það verði að lækka lífeyrisgreiðslur okkar, þá er bara að breyta þeim í óákveðinn tíma meðan þessi fjármálakreppa varir. Þá mætti líka setja inn í þessi lög fast ákvæði um hámark launa starfsmanna og stjórnarmanna sjóðanna. Og fleiru mætti breyta, t.d. að eftirlaunafólkið sjálft ætti fulltrúa í stjórnum sjóðanna. Þá mætti líka vera ákvæði um að konur ættu jafnmarga fulltrúa og karlmenn í sjóðsstjórnunum. Það er sko sannarlega kominn tími til að þessir hópar fái aðild að stjórnum sjóðanna. Og er nokkuð vit í því að stjórnendur lífeyrissjóðanna séu á hærri launum en stjórnendur landsins.

Það er kominn tími til að endurskoða aðkomu atvinnurekenda að lífeyrissjóðunum því þeir hafa allt of mikil áhrif þar og nýta sér þau til að skara eld að sinni köku. Við bókagerðarmenn stofnuðum okkar lífeyrissjóði (prentara og bókbindara) fyrir um hálfri öld og þá var þetta gert í kjarasamningum. Samkomulag var gert við atvinnurekendur um að stofna lífeyrissjóði með því að borga 4% af launum okkar í þá og atvinnurekendur greiddu 6%. - Við höfðum krafist 15% launahækkunar fyrir þessa samninga en fengum lífeyrissjóðina í staðinn og enga launahækkun. Stjórnir bókagerðarfélaganna töldu strax og lýstu því yfir að lífeyrissjóðirnir væru eign meðlima sinna þar sem þeir greiða til þeirra af launum sínum, og ekki sé annað hægt en líta á greiðslu vinnuveitenda í sjóðina öðruvísi en sem hluta af vinnulaunum. Atvinnurekendur hafa því engan rétt til þess að hafa fulltrúa sína í stjónum sjóðanna. Burt með þá. Það er full ástæða til þess að endurskoða þessi mál nú þegar umræða er í gangi í þjóðfélaginu um ábyrgð stjórna lífeyrissjóðanna. Við sem stofnuðum lífeyrissjóðina eigum þá, en ekki atvinnurekendur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband